Fréttasafn



16. apr. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Mikil fjölgun íbúða í byggingu á Norðurlandi

Í helgarútgáfu Morgunblaðsins var sagt frá því að íbúðum sem eru í byggingu á Norðurlandi fjölgi mikið milli ára samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins í mars og að það hafi verið 87% fleiri íbúðir í smíðum á Akureyri og fjöldi íbúða í smíðum á Húsavík hafi þrefaldast milli ára. 

Baldur Arnarson, blaðamaður, skrifar að samanlagt séu rúmlega 440 íbúðir  í byggingu á Norðurlandi samkvæmt talningunni. Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir umsvifin hafa aukist mikið á Norðurlandi. „Það er greinilegt að vöxtur, bæði í iðnaði og ferðaþjónustu, skilar sér í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á svæðinu. Uppbyggingin er hlutfallslega mest á Húsavík. Þar er um að ræða samspil atvinnuuppbyggingar á Bakka og vaxtar ferðaþjónustunnar. Við sjáum mikla uppbyggingu á fleiri stöðum á Norðurlandi sem tengja má við þessa undirliggjandi þætti.“

Sigurður svarar spurningu blaðamanns hvernig byggingargeirinn sé undir það búinn að mæta aukinni eftirspurn á þá leið að um 16 þúsund manns hafi starfað í greininni árið 2008 og til samanburðar hafi starfsmennirnir verið um 12 þúsund í fyrra. Sigurður telur því útlit fyrir frekari fjölgun starfa í greininni á næstu árum og rifjar upp að byggingargeirinn búi við mun meiri sveiflur en aðrar atvinnugreinar. „Byggingargeirinn er sveigjanlegur. Hann ætti því að vera vel í stakk búinn til að mæta auknum umsvifum á næstu árum.“ 
Morgunbladid-14-04-2018
Morgunblaðið, 14. apríl 2018.