Fréttasafn



6. okt. 2017 Almennar fréttir

Mikilvægt að setja uppbyggingu innviða í forgang

„Uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða hér á landi er feikilega mikil enda hefur henni ekki verið sinnt sem skyldi á umliðnum árum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í viðtali Helga Vífils Júlíussonar í ViðskiptaMogganum. Í viðtalinu er meðal annars rætt um niðurstöður skýrslunnar Innviðir á Íslandi - ástand og framtíðarhorfur sem kynnt var í gær. 

Þörfin fyrir viðhald innviða er áætluð 372 milljarðar króna eða um 11% af endurstofnvirði innviða. Með því hugtaki er átt við hvað kosti að reisa aftur sambærilega innviði frá grunni. „Uppbygging innviða er nátengd samkeppnishæfni landsins og markar þannig þróun þess. Þess vegna er mikilvægt að setja uppbyggingu á innviðum í forgang og þannig leggja grunn að framtíðarvexti,“ segir hann. 

Rétti tíminn til að fara í uppbyggingu innviða

„Út frá stöðu efnahagsmála er núna rétti tíminn til að fara í uppbyggingu á innviðum. Það er farið að hægja á vexti hagkerfisins og slíkar fjárfestingar myndu draga úr niðursveiflu og stuðla að framtíðarvexti. Hafa þarf í huga, að innviðir eru grundvöllur verðmætasköpunar og forsenda þess að atvinnulífið blómstri um land allt. Með fjárfestingu í innviðum í dag er verið að byggja undir hagvöxt til framtíðar litið,“ segir Sigurður. Hann segir að mesta viðhaldsþörfin sé í orkuflutningum, vegum, fráveitum og fasteignum ríkisins. Þörfin sé 70 milljarðar í orkuflutningum, 110-120 milljarðar í vegum, 50-80 milljarðar króna í fráveitum og leggja þurfi 76-86 milljarða til að koma fasteignum hins opinbera í gott horf.

Verðmæti innviða jafnast á við heildareignir lífeyrissjóðanna

Í viðtalinu segir Sigurður jafnframt að verðmæti innviða landsins, litið til heildarendurstofnvirðis, sé áþekkt og heildareignir lífeyrissjóða landsmanna. „Sá mælikvarði varpar ljósi á hve mikil verðmæti eru bundin í innviðunum,“ segir hann. Endurstofnvirði innviða landsins hefur verið metið 3.493 milljarðar króna. Til samanburðar stóðu heildareignir lífeyrissjóða landsmanna í 3.725 milljörðum króna við lok júlí 2017. „Virði innviða er meira en þessi fjárhæð gefur til kynna vegna þess að innviðir skapa heilmikil verðmæti. Bátar leggjast að bryggju með fisk eða innfluttar vörur og taka á móti vörum til útflutnings. Vegir gera það að verkum að fólk getur sótt vinnu og ferðamenn fara vítt og breitt um landið. Án flugvalla væri hagsæld mun minni. Rafmagn er heimilum og fyrirtækjum nauðsynlegt. Allt saman skapar þetta margfalt verðmæti sem erfitt er að henda reiður á hvert er,“ segir hann.

Morgunblaðið, 5. október 2017. 

Myndin af Sigurði er frá fundi í Kaldalóni í Hörpu þar sem skýrslan var kynnt.