Fréttasafn



7. mar. 2017 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Mikilvægt að verja samkeppnishæfni orkunotenda

Copenhagen Economics birti í dag skýrslu sem unnin var fyrir Landsvirkjun um raforkumarkaðinn á Íslandi. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segir að ýmsar áhugaverðar ábendingar komi fram í skýrslunni sem falla vel að hagsmunum iðnaðarins og samfélagsins alls enda er framleiðsla og nýting raforku á Íslandi ákaflega mikilvæg stoð í efnahagslífinu. „Það er sérstaklega áhugavert að sjá hversu mikla áherslu þeir leggja á orkuöryggi smærri fyrirtækja og að markaðslausnir verði innleiddar á almenna markaðnum. Nauðsynlegt er að bæta verðmyndun á heildsölumarkaði með raforku og skýra hlutverk aðila á raforkumarkaði. Eðlilega horfa þeir líka til þess að ná meiri arði út úr nýtingu auðlinda.  Sérstaklega áhugaverð er hugmynd þeirra um ákveðin auðlindaskatt sem gæti komið í stað arðgreiðsla orkufyrirtækja. Samtök iðnaðarins minna hins vegar á mikilvægi þess að verja samkeppnishæfni orkunotenda á Íslandi og því er mikilvægt að vanda til verka,“ segir Bjarni Már.

Í skýrslunni er fjallað mikilvægi þess að skilja á milli eignarhalds Landsnets og Landsvirkjunar. „Samtök iðnaðarins deila þessari skoðun með Dönunum. Landsvirkjun sem er langstærsta orkufyrirtækið og framleiðir yfir 70% af raforku í landinu á ekki að eiga flutningsfyrirtæki raforku sem er í eðli sínu einokunarstarfsemi. Raforkumarkaðurinn væri allur heilbrigðari ef slitið væri á þessi tengsl. Ein leið væri að hlutbréf Landsvirkjunar í Landsneti væri einfaldlega úthlutað sem arður til ríkisins. Það myndi bæta umhverfið á raforkumarkaði,“ segir Bjarni Már.

Skýrsluhöfundar benda á að að tryggja þurfi heildstætt mat á efnahagslegum og umhverfislegum áhrifum virkjana. Horfa þyrfti í meiri mæli til efnahagslegra sjónarmiða. „Við hjá SI höfum verið gagnrýnin á að í rammaáætlun hafi fyrst og fremst verið horft á vægi verndunar og annarrar nýtingar en vægi efnahagslegra þátta sé ekki tekið með inn í myndina. Staðreyndin er sú að það kostar okkar samfélag líka mikið ef ekki er virkjað og auðlindir ekki nýttar til atvinnusköpunar á landinu. Að okkar mati er nauðsynlegt að vega saman betur efnahagslegan ávinning af orkuvinnslu og nýtingu á móti umhverfisþáttum,“ segir Bjarni Már og bendir á að verðug verkefni séu framundan til að bæta umgjörð raforkumarkaðarins á Íslandi. „Iðnaðurinn verður að vera þátttakandi í þessari vegferð enda nota okkar félagsmenn líklega um 85% af þeirri raforku sem framleidd er í landinu,“ segir Bjarni að lokum.

Hér má nálgast skýrsluna.