Fréttasafn



27. feb. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Miklar sveiflur í bygginga- og mannvirkjagerð

Miklar sveiflur hafa einkennt starfsumhverfi bygginga- og mannvirkjagerðar hér á land og hafa sveiflurnar verið meiri en fyrirfinnast í flestum öðrum atvinnugreinum. Þetta kom meðal annars fram í erindi sem Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, hélt á stefnumótunarfundi Mannvirkjaráðs SI í dag á Vox Club. Hann sagði þetta vera áskorun fyrir greinina að takast á við. „Í núverandi efnahagsuppsveiflu var vöxturinn lengi að taka við sér í þessari grein hagkerfisins og arðsemi og eiginfjárhlutföll lág lengur í þessari uppsveiflu í þessari grein en að meðaltali í öðrum greinum. Núna er greinin sú sem er að vaxa hvað hraðast af öllum greinum hagkerfisins. Endurspeglar það að hún er að standa undir mjög stórum hluta hagvaxtarins um þessar mundir. Hefur vöxturinn undanfarið að stórum hluta verið á sviði íbúðauppbyggingar. Þrátt fyrir vöxtinn er umfang fjárfestingar í byggingum og mannvirkjum enn nokkuð lágt sögulega séð.“


Mikilvægi innviða mótar mikilvægi greinarinnar

Ingólfur sagði einnig að uppbygging innviða og viðhald hvíli á herðum bygginga- og mannvirkjaiðnaðar. Mikilvægi greinarinnar er umtalsvert meira hér á landi en fyrirfinnst í flest öðrum ríkjum hvað þetta varðar en Ísland er sérstakt fyrir þær sakir að innviðir eru stærri hluti af gagnverki íslenska hagkerfisins en víðast hvar. Endurstofnvirði þeirra um er 138% af landsframleiðslu sem er eitt hæsta hlutfall í heiminum og tvöfalt heimsmeðaltal.

Hann sagði að mikið umfang innviða hér á landi mótist m.a. af því að við búum í strjálbýlu landi sem gerir m.a. samgöngu-innviði okkar kostnaðarsama m.v. stærð hagkerfisins. Vegakerfið er um ¼ af umfangi innviða hér á landi. „Auk þessa höfum við byggt útflutningsatvinnuvegi okkar að mestu á nýtingu náttúruauðlinda sem aftur byggja á innviðum hvort sem er í höfnum, orkumannvirkjum eða í samgönguinnviðum. Raforkukerfið er þannig að stórum hluta byggt upp í kringum gjaldeyrisskapandi greinar í iðnaði en raforkukerfið er 1/3 af innviðakerfinu hér á landi.“

Lítið fjárfest í innviðum síðustu ár

Í máli Ingólfs kom fram að fjárfesting í innviðum hefur verið lítið síðustu ár sagði Ingólfur. Á sama tíma hefur notkun innviða hagkerfisins vaxið umtalsvert með hröðum hagvexti. Hafa innviðir á sviði m.a. samgangna verið viss forsenda núverandi efnahagsuppsveiflu sem lengi vel var knúin af auknum gjaldeyristekjum af erlendum ferðamönnum. Þegar litið er til hagvaxtar næstu ára er ljóst að verulegs átaks er þörf í innviðauppbygginu ef það markið á að nást að halda uppi viðunandi hagvexti og lífskjörum í landinu.

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs frá fundinum.