Fréttasafn



14. des. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Mörg fyrirtæki mundu ekki ráða við nýja persónuverndarsekt

Um 35% aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins segjast geta orðið gjaldþrota ef kæmi til álagningar há- marksfjárhæðar stjórnsýslusektar nýrra persónuverndarlaga Evrópusambandsins sem taka gildi í maí. Þetta kemur fram í frétt ViðskiptaMoggans í dag þar sem Helgi Vífill Júlíusson, blaðamaður, ræðir við Björgu Ástu Þórðardóttur, lögfræðing SI, um könnun sem SI framkvæmdi meðal aðildarfyrirtækja sinna um fyrirhugaðar breytingar á persónuverndarlögunum. 

Hámark 2,5 milljarða króna sekt

Í fréttinni segir að sektin geti verið allt að 4% af ársveltu samsteypu, að hámarki 20 milljónir evra eða 2,5 milljarðar króna. Samkvæmt könnuninni sem 100 fyrirtæki svöruðu yrðu 30% aðildarfyrirtækja að taka lán til að greiða sektina en 15% aðildarfyrirtækja gætu greitt hana, 33% svöruðu annaðhvort að þau væru óviss eða annað. 

„Í nýju lögunum er sektarheimild sem er ekki í núverandi persónuverndarlögum,“ segir Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur samtakanna. „Nýja löggjöfin gerir meiri kröfur til fyrirtækja um persónuvernd en nú er. Þar eru nýmæli eins og að einstaklingar geta óskað eftir því að fyrirtæki eyði öllum gögnum um þá og aukin réttindi um að fá gögn afhent eða flutt þau á milli aðila.“ Þá segir í fréttinni að í könnun SI komi fram að 24% fyrirtækja hafa hafið undirbúning fyrir gildistöku nýrra persónuverndarlaga og 72% hafa ekki hafið undirbúning. „Könnunin leiðir í ljós hve mikilvægt það er að stjórnendur fyrirtækja fari að skoða þetta og meti með hvaða hætti löggjöfin geti haft áhrif á þeirra fyrirtæki,“ segir hún.  

Morgunblaðið, 14. desember 2017.