Fréttasafn13. nóv. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

Næsta ríkisstjórn hefur val um nýsköpun eða stöðnun

Hugvit verður drifkraftur vaxtar á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var drifkraftur framfara á þeirri 20. Náttúruauðlindir eru takmarkaðar og staðbundnar en hugvitið er óþrjótandi og án landamæra. Því þarf að hvetja til nýsköpunar í allri sinni mynd auk þess sem starfsumhverfi þarf að vera samkeppnishæft við önnur lönd. Næsta ríkisstjórn hefur val um að bæta lífskjör til framtíðar litið með nýsköpun eða stöðnun. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Hann segir að nú þegar efnahagslegri endurreisn Íslands sé farsællega lokið sé nauðsynlegt að horfa fram á veginn og hefja sókn um sjálfbæran vöxt til næstu áratuga. Næsta ríkisstjórn þurfi að hafa kjark til þess að horfa langt fram í tímann, innleiða nýja hugsun í menntamálum og byggja undir vöxt á grundvelli nýsköpunar. Allir stjórnmálaflokkar hafi talað á þessum nótum fyrir kosningar en nú komi í ljós hverjir láta verkin tala. Í niðurlagi greinarinnar segir Sigurður að vonandi sjáist þess merki í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.