Fréttasafn



4. okt. 2018 Almennar fréttir Menntun

Námsvali nemenda verði seinkað

„Við erum að láta nemendur velja fyrr á milli en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Það eru tækifæri til kerfisbreytinga sem fela meðal annars í sér að seinka þessum brotpunkti, en fram að honum efla val og starfsmenntun nemenda þannig að þeir geti frekar tekið upplýsta ákvörðun,“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri mennta- og mannauðsmála hjá SI, í Morgunblaðinu í dag um nýja menntastefnu SI.

Í nýrri menntastefnu Samtaka iðnaðarins er lagt til að kennaranám verði stytt í þrjú ár auk eins árs sem yrði launað starfsnám og að menntakerfið verði endurskoðað með það í huga að betri samfella verði á milli skólastiga en að nemendur ákveði síðar í ferlinu hvort þeir leggi fyrir sig bóknám eða iðnnám að grunnskólanum loknum. 

Efla íslenskt menntakerfi

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að markmið menntastefnunnar er efling íslensks menntakerfis með markvissum aðgerðum til að mæta færniþörf atvinnulífsins og tekur nýja menntastefnan til fleiri þátta en fyrri menntastefnur samtakanna. „Við leggjum fram stefnuna í fimm markmiðum og aðgerðalista með hverju markmiði,“ segir Ingibjörg. Meðal þess sem kemur fram í stefnunni er að hlutfall brautskráðra á háskólastigi í greinum sem kenndar eru við vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði verði 25% árið 2025, að 20% grunnskólanema velji starfsmenntun árið 2025 og 30% árið 2030. Auk þess er mikil áhersla á eflingu list- og verkgreina í grunnskólum.

Morgunblaðið / mbl.is, 4. október 2018.