Fréttasafn



28. jún. 2016 Iðnaður og hugverk

Bakarar söfnuðu einni milljón með sölu á brjóstabollunni

Landssamband bakarameistara, LABAK, efnir árlega til sölu á brjóstabollum á mæðradaginn til stuðnings styrktarfélaginu Göngum saman og söfnuðu félagsmenn LABAK að þessu sinni einni milljón króna. Jón Albert Kristinsson, formaður LABAK, afhenti Gunnhildi Óskarsdóttur, formanni Göngum saman, það sem safnaðist við upphaf vikulegrar hressingargöngu Göngum saman við Perluna í gær.

Alls hefur LABAK safnað um átta milljónum króna með þessu verkefni á síðastliðnum sex árum. Gunnhildur er afar þakklát LABAK fyrir samstarfið og telur að framlag þess sé styrktarfélaginu ómetanlegt. 

Allt fé sem Göngum saman safnar fer í styrktarsjóð en félagið veitir styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini í október ár hvert.

Á myndinni eru Jón Albert Kristinsson, Gunnhildur Óskarsdóttir, og gönguhópur Göngum saman að leggja af stað í hressingargöngu en styrktarfélagið Göngum saman leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar til heilsueflingar.