Fréttasafn



21. okt. 2016 Iðnaður og hugverk

Agustav sýnir í Dubai

Agustav sem er aðildarfyrirtæki SI tekur þátt í hönnunarsýningu sem fram fer í Dubai í næstu viku. Agustav verður þar ásamt 1+1+1 og North Limited en þessi fyrirtæki voru valin til að taka þátt í sýningunni á vegum HönnunarMars. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskir hönnuðir taka þátt í þessari stærstu sölusýningu hönnunar í Miðausturlöndum en sýningin fer fram í fjórða sinn.

Hönnuðirnir hjá Agustav, 1+1+1 og North Limited hafa sjálfbærni að leiðarljósi við hönnun á hágæða vörum sem bera með sér sterkan keim norrænnar fagurfræði segir á vef Hönnunarmiðstöðvarinnar þar sem þetta er tilkynnt.  

Agustav er í eigu Ágústu Magnúsdóttur og Gústav Jóhannssonar. Fyrirtækið sérhæfir sig í einföldum, endingargóðum húsgögnum úr timbri. Agustav gróðursetur tré fyrir hverja selda vöru. North Limited er hönnunarteymi þriggja hönnuða, Sigríði Hjaltdal Pálsdóttur, Þórunni Hannesdóttur og Guðrúnu Valdimarsdóttur, sem hanna endingargóðar vörur fyrir heimilið innblásnar af mínimalískum línum. 1+1+1 er tilraunastofa norræns samstarfs Róshildar Jónsdóttur og Snæbjörns Stefánssonar við sænska og finnska hönnuði, þar sem hver eining leggur til sitt óháða framlag og heildarútkoman því óvænt og fjölbreytileg.

Nánar um sýninguna