Fréttasafn



28. apr. 2017 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Kuðungurinn fór til Endurvinnslunnar

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttur, afhenti Helga Lárussyni, framkvæmdastjóra Endurvinnslunnar Kuðunginn í dag. Þetta er í 22. sinn sem Kuðungurinn,  viðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á framlagi fyrirtækja og stofnana til umhverfismála er veittur. Viðurkenningin var fyrst afhent 1994 og þyki eftirsóknarverð á meðal fyrirtækja sem vilja láta taka sig alvarlega á sviði umhverfismála.

Dómnefndin í ár var skipuð þeim Steinari Kaldal formaður nefndarinnar, Heimi Birni Janusarsyni fyrir hönd Alþýðusambands Íslands, Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins og Ragnhildi Freysteinsdóttur fyrir hönd frjálsra félagasamtaka. Með dómnefndinni starfaði Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Við mat á tilnefningum horfði dómefndin til margra þátta, m.a. hvort starfsemin yki umhverfisvitund almennings, hvort þar væri ástunduð árangursrík umhverfisstjórnun, hvort þar ættu sér stað innleiðingar á nýjungum í umhverfisvernd, reynt væri að lágmarka úrgang og unnið væri að umhverfisvænni vöruþróun. Þá hafði dómnefndin sjálbærnihugtakið í huga þegar hún fór yfir tilnefningarnar, þ.e.a.s. hvert framlag þeirra fyrirtækja sem tilnefnd voru er til grunnþátta sjálbærnihugtaksins, en þar þurfa að haldast í hendur umhverfislegur, samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur.

Í ár bárust 12 tilnefningar. Verðlaunagripurinn er hannaður af Lóu Hjálmtýsdóttur. 

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Endurvinnslan hafi verið stofnuð 1989 og fyrirtækið því brautryðjandi í endurvinnslu úrgangs hérlendis en það var stofnað til að taka á því umhverfisvandamáli sem fylgdi auknu magni umbúða, dósa og flaskna. Ennfremur segir: Umhverfismálin hafa því verið samofin starfsemi fyrirtækisins alveg frá byrjun. Fyrirtækið hefur einnig tekið umhverfisstjórnunina föstum tökum og hlaut meðal annars nýverið ISO14001 umhverfisvottun. Starfsemi Endurvinnslunnar er þess eðlis að ávinningur er af endurvinnslu umbúða, sé kolefnisspor reiknað. Sé stuðst við alþjóðlega útreikninga má ætla að kolefnisávinningur af starfsemi Endurvinnslunnar sé á við það að um 3.000 bifreiðar væru fjarlægðar af götum landsins. Í því samhengi má einnig nefna að fyrirtækið býður upp á samgöngustyrki fyrir starfsmenn sem velja að hjóla, fara í strætó eða ferðast á rafmagns- og metan bílum til vinnu og heldur einnig úti rafmagnsbíl til nota í sínum rekstri. Þá er það einnig stefna hjá fyrirtækinu að lágmarka úrgang, en mikið fellur til af plastpokum og kössum sem viðskiptavinir skilja eftir á móttökustöðum. Árið 2016 sendi Endurvinnslan þannig 73 tonn af plasti og 7 tonn af pappír til endurvinnslu. Þá hefur fyrirtækið sett upp endurvinnslugáma fyrir almenning  við sumar starfsstöðvar sínar fyrir ýmsar tegundir flokkaðs sorps, s.s. plast, pappa, fatnað, kertaafganga og rafhlöður og aukið þannig möguleika almennings til að koma slíkum úrgangi frá sér með kórréttum hætti. Endurvinnslan hefur líka lagt sig fram um að taka skrefið lengra þegar kemur að innleiðingum á nýjungum í umhverfisvernd og umhverfisvænni vöruþróun. Söfnun drykkjarumbúða hjá Endurvinnslunni býr við þá sérstöðu umfram sambærilega starfsemi erlendis að þar er tekið við beygluðum umbúðum og þær taldar, en slíkt er talið skapa vandamál í talningum og því er það ekki gert annars staðar. Þessi sérstaða kemur þá í veg fyrir að beyglaðar umbúðir séu skyldar eftir út í náttúrunni þar sem að ekki væri tekið á móti þeim.