Fréttasafn



11. ágú. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Þarf meiri áræðni stjórnvalda í uppbyggingu gagnavera

Í leiðara Viðskiptablaðsins þessa vikuna er kastljósinu beint að uppbyggingu gagnavera hér á landi. Þar segir að fjölmargar nágrannaþjóðir okkar líti á slíka uppbyggingu sem eitt af stóru vaxtartækifærum framtíðarinnar og það sé ekki að ástæðulausu. Nefnd eru dæmi af efnahagslegum áhrifum slíkrar starfsemi í Svíþjóð sem árið 2015 voru 13 milljarðar sænskra króna eða sem nemur tæpum 152 milljörðum íslenskra króna og 2.100 stöðugildi. Það sé því ekki að furða að hinar ýmsu þjóðir sýni slíkri uppbyggingu áhuga enda miklir hagsmunir í húfi. 

Þá segir leiðarahöfundur að það sé óumdeilt meðal sérfræðinga víðs vegar að á Íslandi séu frá náttúrunnar hendi kjöraðstæður fyrir uppbyggingu gagnavera þar sem framleiðslukostnaður á rafmagni er líklegast sá lægsti í heiminum, veðurskilyrði á Íslandi geri það að verkum að hægt er að tryggja ókeypis kælingu allan ársins hring og landfræðileg lega Íslands ákjósanleg milli tveggja stórra markaða, meginlands Evrópu og Bandaríkjanna.  

Bent er á að Ísland komi illa út úr samanburði við nágranna okkar í Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi, Írlandi og á fleiri svæðum sem hafa sett það á oddinn hjá sér að laða til sín erlenda fjárfesta, þar á meðal fyrirtæki sem hafa það að markmiði að opna gagnaver. Þá sé áhugaleysi stjórnvalda hvergi jafn átakanlega áberandi og þegar litið er til þess skorts sem virðist vera á nauðsynlegum innviðum til að hagnýta þá auðlind sem gæti skipt sköpum fyrir íslenskt þjóðarbú, aukið fjölbreytni á tiltölulega einhæfum atvinnumarkaði og það á nokkuð umhverfisvænan máta. En það þurfi hins vegar lítils háttar áræðni til að hagnýta slíka auðlind og eins og er virðist sem perlum hafi verið kastað fyrir svín. Jafnframt segir í leiðaranum að Ísland sé ekki samkeppnisfært, annað hvort tileikni maður sér nauðsynlegar tæknibreytingar eða situr eftir á meðan aðrir fylgja þróuninni og það sé ljóst að Ísland sé orðið eftir á í þessu tilviki og lítið virðist gert til að senda önnur skilaboð til erlendra fjárfesta.

Nánar: Viðskiptablaðið, 10. ágúst 2017.