Fréttasafn



18. ágú. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Líkur á lækkun stýrivaxta

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur nú saman eftir sumarfrí til að ákveða stýrivexti Seðlabankans. Verður niðurstaða nefndarinnar kynnt í næstu viku, miðvikudaginn 23. ágúst, en samkvæmt nýbirtri könnun meðal aðila á fjármálamarkaði eru líkur á því að nefndin muni lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur þ.e. að meginvextir bankans fari úr 4,5% í 4,25%. Mikil lækkun gengis krónunnar frá síðustu vaxtaákvörðun skapar hins vegar talsverða óvissu um ákvörðun nefndarinnar að þessu sinni.  

Tveir vildu lækka meira en 0,25 prósentur síðast

Síðast kom peningastefnunefndin saman um miðjan júní. Á þeim fundi lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu lækkaður um 0,25 prósentur. Allir nefndarmenn studdu tillöguna en tveir þeirra hefðu þó heldur kosið að lækka vexti um 0,5 prósentur. Var nefndin sammála um að traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við 2,5% verðbólgumarkmiðið og hækkun gengis krónunnar hefðu gert peningastefnunefnd mögulegt að ná lögboðnu markmiði um verðstöðugleika með lægri vöxtum en ella.

Verdbolgumarkmid

Verðbólgan enn undir markmiðinu

Verðbólgan mælist nú 1,8% og hefur hækkað lítillega frá síðustu vaxtaákvörðun þegar hún mældist 1,7%. Taumhald peningastefnunnar miðað við raunvexti Seðlabankans, metið út frá meginvöxtum bankans og núverandi verðbólgu, hefur því haldist nánast óbreytt á tímabilinu.   

Mikil lækkun krónunnar stærsti óvissuþátturinn

Stærsti óvissuþátturinn varðandi vaxtaákvörðun peningastefnunefndar nú er hvernig hún muni líta þróun gengis krónunnar frá síðustu vaxtaákvörðun. Hefur gengi krónunnar lækkað um 11% frá þeirri ákvörðun sem er umtalsverð breyting á skömmum tíma. Er þróunin talsvert önnur en t.d. var reiknað með í síðustu verðbólguspá bankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðun bankans 17. maí sl. en þar var reiknað með því að gengi krónunnar myndi styrkjast áfram. Hefur gengi krónunnar lækkað um tæplega 10% frá ákvörðuninni í maí.  

Verðbólguvæntingar óbreyttar við markmiðið þrátt fyrir gengislækkun

Nýbirt könnun á verðbólguvæntingum aðila á innlendum fjármálamarkaði gefa til kynna að verðbólguvæntingar þeirra til skemmri og lengri tíma séu svipaðar nú og þegar síðasta könnun var gerð meðal þessara aðila í maí sl. Vænta aðilar þess að verðbólgan verði rétt undir verðbólgumarkmiðinu til skemmri tíma en í verðbólgumarkmiðinu til lengri tíma.

Eru þetta góð tíðindi fyrir Seðlabankann og sérstaklega í ljósi þróunar gengis krónunnar á tímabilinu. Er þetta afrakstur þess árangurs sem náðst hefur í að skapa verðbólguvæntingum kjölfestu í verðbólgumarkmiðinu m.a. vegna þess að verðbólgan hefur verið rétt undir verðbólgumarkmiði bankans frá upphafi árs 2014. Verður þetta eitt af því sem nefndin mun eflaust vísa til við rökstuðning sinn fyrir lækkun stýrivaxta 23. ágúst.

Samkvæmt könnuninni vænta aðilar á fjármagnsmarkaði þess að stýrivextir bankans verði lækkaðir um 0,25 prósentur nú á þriðja ársfjórðungi en einungis ein vaxtaákvörðun er á fjórðunginum. Reikna þeir hins vegar með því að stýrivöxtum bankans verði haldið óbreyttum eftir það næstu tvö árin.

Mun áfram reikna með því að það fari að slakna á spennunni

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta nýja þjóðhags- og verðbólguspá. Samkvæmt uppfærðri spá bankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í maí átti hagvöxtur í ár að vera nokkuð hraður eða 6,3% en að á næstu tveimur árum átti að draga úr vextinum og slakna á spennunni í hagkerfinu. M.v. þróun helstu hagvísa undanfarið verður að teljast ólíklegt að sú mynd verði mikið breytt í nýrri spá bankans. Nú styttist því í niðursveifluna og munu það eflaust vera rök hjá nefndinni fyrir lækkun vaxta. Verðbólguspáin til skemmri tíma kann hins vegar að litast af því að gengi krónunnar hefur þróast ólíkt því sem reiknað var með í síðustu spá bankans en reiknaði bankinn með því að verðbólgan myndi haldast undir verðbólgumarkmiði bankans fram á fjórða ársfjórðung á næsta ári. Ef verðbólguvæntingar haldast hins vegar óbreyttar, líkt og vísbendingar eru um, þá er líklegt að nefndin horfi framhjá þessari breytingu í verðbólguspánni.

Ingólfur Bender, hagfræðingur SI.

ingolfur@si.is, s. 8246105