Fréttasafn



7. maí 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Ný greining SI á íbúðamarkaðnum

Í nýrri greiningu sem Samtök iðnaðarins hafa gert kemur meðal annars fram að á síðustu áratugum hefur hækkandi meðalaldur, lækkandi fæðingartíðni o.fl. þættir sem tengjast lýðfræðilegri þróun gert það að verkum að þörf fyrir fjölgun íbúða hefur aukist hraðar en fólksfjöldinn í landinu. Fjölskyldustærðin hefur minnkað og fleiri búa nú einir eða eru í sambúð þar sem engin börn eru á heimilinu. Hefur þetta valdið því að meðalfjöldi íbúa sem búa í hverri íbúð hefur lækkað og fleiri íbúðir þarf til að mæta þörfum íbúa landsins. 

Þessi þróun hefur verið alþjóðleg þó að misjafnt sé hvar einstök lönd eru stödd hvað þetta varðar. Þessi lýðfræðilega þróun hefur verið sjálfstæð uppspretta aukinnar íbúðaeftirspurnar þar sem sami fjöldi íbúa þarf fleiri íbúðir. Þannig hefur íbúðafjölgun víðast hvar verið hraðari en íbúafjölgun. Reiknað er með að þessi þróun haldi áfram á næstu áratugum. Þannig ganga flestar spár um fjölgun íbúða í löndunum í kringum okkur út að á sú fjölgun verði hraðari en íbúafjölgun. Má sem dæmi taka að reiknað er með að íbúafjöldi á Englandi aukist um 16% til ársins 2041 en að íbúðaþörf vaxi um 23% þ.e. 7 prósentustigum umfram fólksfjölgun. Hér á landi er reiknað með að íbúum fjölgi um 22% fram til ársins 2040 en að íbúðum þurfi að fjölga um 33% eða 45 þúsund.

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni. Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, ingolfur@si.is eða sími 8246105.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI vegna íbúðatalningar.