Fréttasafn



22. maí 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Ný greining SI á umferðartöfum

Síðasta ár var metár í bílaumferð og umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu náðu sögulegum hæðum. Umferð hefur aukist samfara efnahagsuppsveiflunni en bifreiðaeign og akstur hefur vaxið með fólksfjölgun og auknum kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna. Þá fara ferðamenn stóran hluta sinna ferða á bifreiðum og hefur hlutur þeirra í umferðinni farið vaxandi á síðustu árum. 

Búa í dýru húsnæði í miðborginni eða sitja löngum stundum í umferðartöfum?

Lítið lóðaframboð nær miðju höfuðborgarsvæðisins og tafir í uppbyggingu hefur kallað á vöxt í jöðrum þess til að mæta íbúðaþörf borgarbúa. Þetta hefur verið sjálfstæð uppspretta aukinnar umferðar. Aukinni umferð hefur ekki verið mætt með samgöngubótum og afleiðingin er umferðartafir, mengun og allt of háar slysatölur með tilheyrandi kostnaði fyrir fyrirtæki, heimili og samfélagið allt. Tengsl ferðatíma og fasteignaverðs verða æ sýnilegri. Segja má að höfuðborgarbúum standi almennt tvennt til boða þ.e. að búa í dýru húsnæði í miðborg Reykjavíkur eða sitja löngum stundum í umferðartöfum. 

Þetta kemur meðal annars fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins á umferðartöfum og íbúðaruppbyggingu.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI í heild sinni.