Fréttasafn



6. apr. 2017 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni

Ný persónuverndarlöggjöf hefur víðtæk áhrif á íslensk fyrirtæki

Samtök iðnaðarins standa fyrir opnum fundi á morgun föstudaginn 7. apríl á Hilton Reykjavík Nordica kl. 8.30-10.00 þar sem sérfræðingar á sviði persónuverndar kynna helstu breytingar sem fylgja nýrri reglugerð Evrópusambandsins nr. 2016/679 um vernd einstaklinga við vinnslu persónuupplýsinga og frjálst flæði slíkra upplýsinga. Þessi nýja löggjöf mun hafa víðtæk áhrif hér á landi og snerta öll fyrirtæki sem vinna á einhvern hátt með persónuupplýsingar, hvort sem upplýsingarnar varða starfsmenn, viðskiptavini, notendur eða aðra. Reglugerðin leitast við að samræma persónuverndarlöggjöf aðildarríkja og auðvelda myndun sameiginlegs stafræns markaðar. Í reglugerðinni er kveðið á um umfangsmiklar breytingar sem snerta alla þætti vinnslu og meðferðar persónuupplýsinga. 

EyrunEyrún Arnarsdóttir, lögfræðingur SI, segir brýnt að fyrirtæki hér á landi hugi að undirbúningi í tæka tíð og kynni sér reglurnar vel þó reglugerðin taki ekki gildi fyrr en 25. maí 2018. „Uppfæra þarf gildandi verklag í tengslum við persónuupplýsingar til samræmis við hina nýju löggjöf. Fyrirtæki þurfa meðal annars að endurskoða persónuverndarstefnu sína, skerpa á innri ferlum, skjalfesta vinnslu persónuupplýsinga og skilgreina söfnun og notkun slíkra upplýsinga með nánari hætti en áður. Einnig þarf að uppfylla nýjar kröfur um viðbrögð við öryggisbrestum ásamt því að meta áhættu af vinnslu persónuupplýsinga og mögulegar afleiðingar á friðhelgi einstaklinga. Þá mælir reglugerðin fyrir um stórauknar sektarheimildir persónuverndarstofnana.“

Dagskrá fundarins

  • Vigdís Eva Líndal, verkefnisstjóri EES-mála hjá Persónuvernd - Persónuvernd - lykilatriði í rekstri
  • Hafliði K. Lárusson, lögmaður og sérfræðingur í persónuverndarrétti hjá Fjeldsted & Blöndal lögmannsstofu - Persónuvernd - helstu atriði við aðlögun fyrirtækja að nýjum reglum

Að loknum erindum frummælenda verður efnt til umræðna. Fundarstjóri er Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika ehf.

Skráning.