Fréttasafn18. apr. 2017 Almennar fréttir Gæðastjórnun

Ný uppfærsla á TAXTA

Fjórða kynslóð af forritinu TAXTI IV er komin út og er þar um að ræða endurbætta útgáfu af þeim eldri. Fyrir um 20 árum þegar bannað var að gefa út samræmda taxta á útseldri vinnu létu Samtök iðnaðarins hanna forritið TAXTA fyrir félagsmenn sína til að reikna og útbúa sína eigin taxta. Með forritinu er auðvelt að reikna út þá álagningu á laun starfsmanna, vélar og tæki sem þarf til að standa undir öllum kostnaði og skila ásættanlegum hagnaði.

Með TAXTA IV er auðvelt að sjá m.a.:

  • hvort er nægileg álagning á tilboðs- og tímavinnu
  • hvort borgi sig að bæta við starfsfólki í stað eftirvinnu
  • hversu mikla fjárfestingu reksturinn ber
  • hvað þarf að rukka fyrir m.a.: háþrýstidæluna, borðsögina, gröfuna, körfubílinn, vinnupallana, ekinn kílómeter og fleira

Þegar nokkrar tölur úr síðasta ársreikningi hafa verið slegnar inn og skráðir hafa verið starfsmenn ásamt vélum sem ætlunin er að verðleggja sérstaklega inn í TAXTA þá liggur niðurstaðan fyrir.

IÐAN fræðslusetur í samvinnu við Samtök iðnaðarins hefur um árabil staðið fyrir námskeiðum í útreikningum á álagningu á útselda vinnu, vélar og tæki þar sem m.a. er stuðst við forritið TAXTI. Á námskeiðinu er farið í saumana á ýmsum rekstrarlegum hugtökum, útreikningum á útseldri vinnu og vélaleigu þar sem stuðst er við TAXTA.

Hér má einnig finna ítarlegar leiðbeiningar um notkun TAXTA: http://www.si.is/si-docs/taxti/index.pdf    

Forritið TAXTI IV er frítt fyrir félagsmenn SI. Til að nálgast forritið er hægt að hafa samband við Ferdinand Hansen, verkefnastjóra gæðastjórnunar hjá SI, ferdinand@si.is.