Fréttasafn



20. okt. 2016 Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Nýjar afurðir verða til úr íslenskum gulrófum

Samtök iðnaðarins tóku þátt í verkefninu „Hönnun í framleiðslu – nýting hönnunar við nýsköpun og vöruþróun framleiðslufyrirtækja“ en markmið verkefnisins var að nota hönnun við framleiðslu á fullunnum iðnaðarvörum úr vannýttu hráefni og draga þar með úr matarsóun. Íslenskar gulrófur urðu fyrir valinu sem hráefni. Hér á landi eru 700-1.200 tonn af gulrófum framleidd árlega en um 20% eru ósöluhæf og illnýtanleg af ýmsum ástæðum. Verkefnið fólst í því að nýta þessar illseljanlegu rófur í áhugaverðar afurðir.

Búi Bjarmar Aðalsteinsson, hönnuður, stýrði verkefninu í samstarfi við fleiri hönnuði og framleiðslufyrirtæki. Afraksturinn varð gulrófusíróp, gulrófusvaladrykkir og gulrófuvodki sem hafa nú þegar vakið athygli matreiðslumanna sem áhugaverð hráefni í íslenska matreiðslu. Afurðirnar voru kynntar á viðburðinum „Matur og nýsköpun“ sem haldinn var í Íslenska sjávarklasanum.

Þegar Búi er spurður af hverju íslenskar gulrófur hafi orðið fyrir valinu svarar hann því til að við upphaf verkefnisins hafi íslenskt grænmeti verið kortlagt. „​Í kortlagningunni var litið til fjölbreytileika íslenskrar grænmetisframleiðslu, stærðar hverrar ræktunar fyrir sig, magn afgangsafurða og möguleika til fullvinnslu innan Íslands. Það er greinilegt að það eru fjölmörg sóknarfæri þegar kemur að íslensku grænmeti. Gulrófurnar skáru sig úr  vegna þess magns sem þarf að farga vegna útlits og stærðarviðmiða auk þess eru margir gulrófubændur aðeins að nýta hluta ræktanlegs lands sem sýnir að vaxtarmöguleikar eru miklir.“

En hvað ætli hafi komið mest á óvart í ferlinu? „Viðmót og áhugi innan matvælageirans kom mér mikið á óvart. Stórir og smáir framleiðendur, stofnanir og bændur tóku okkur opnum örmum og fögnuðu frumkvæði að aukinni nýsköpun. Það er mjög hvetjandi að fá slík viðbrögð og ekki alltaf sem nýsköpun er mætt af svo miklum skilningi. Samtök iðnaðarins áttu þar stóran hlut og veittu verkefninu brautargengi með sinni aðkomu. Aðrir sem eiga sérstakt hrós skilið eru Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Guðni í Þórisholti, Sölufélag garðyrkjumanna, Foss Distillery og Matís.“

Búi segir að næstu skref séu áframhaldandi þróunarvinna og fjármögnun verkefnisins. „Vinnsla á gulrófusírópinu hefur gengið vonum framar og hefur nú þegar verið notað af nokkrum veitingahúsum. Vinnsla á áfengi er enn í þróun en ef allt gengur eftir vonumst við til að koma vörum á almennan neytendamarkað á næsta ári.“ ​