Fréttasafn



11. mar. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Öflun gjaldeyristekna byggir í ríkari mæli á innviðum

Innviðir eru stór þáttur í verðmætasköpun hagkerfisins en um 138% af landsframleiðslu eru í innviðum sem er hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Ástæðan er einkum sú að Ísland er strálbýlt og innviðir í samgöngukerfi eru mjög kostnaðarsamir. Sömu sögu er að segja af flutningskerfi raforku sem er umfangsmikið. „Við byggjum í ríkari mæli en nokkru sinni á innviðum í öflun gjaldeyristekna, meðal annars á sviði ferðaþjónustuna, orkuiðnaðar og sjávarútvegs.“ Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í viðtali í Verk og vit sérblaði sem fylgir Viðskiptablaðinu en Ingólfur flutti erindi á ráðstefnu Verk og vit um stöðu helstu innviða landsins. Skuldlaus í ónýtu húsi er fyrirsögn viðtalsins.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa frekar viðtalið við Ingólf:

Tvær ástæður fyrir viðhaldsskorti 

Undanfarið segir Ingólfur hins vegar að viðhald innviða hafi verið skorið við nögl. „Eftir að hafa verið nokkuð metnaðarfull um tíma þá hefur lítið verið fjárfest í innviðum síðustu ár.“ Ástæðurnar segir hann helst vera tvær – efnahagsáfallið 2008, sem gerði fjárhagsstöðu ríkis og sveitarfélaga, þeirra sem fjármagna viðhald innviða, mjög erfiða og síðan að þegar staða þeirra vænkaðist var þensla í efnahagslífinu og því ekki vilji fyrir að setja opinbert fé í viðhald eða uppbyggingu innviða. 

„Til viðbótar kemur að forgangur í ríkisfjármálum var mjög á heilbrigðiskerfið alveg sérstaklega en einnig menntakerfið. Og við höfum svolítið fest okkur í þessu,“ segir Ingólfur. „Fyrir bragðið hefur ástandið á innviðunum versnað umtalsvert. Ábyrg efnahagsstjórn felst auðvitað í því að hafa skuldahlutfall lágt, tryggja stöðugleika og skila afgangi á tímum þenslu og spýta í í niðursveiflu. En það er líka ábyrg hagstjórn að gæta þess að innviðir haldist þannig að þeir geti stuðlað að hagvexti,“ segir Ingólfur. 

Hann segir innviði í misgóðu ástandi. Þannig fái Keflavíkurflugvöllur 4 af 5 mögulegum í einkunn og er sömu sögu að segja af hitaveitum og orkuvinnslu. Hins vegar fái fráveitur og bæði þjóð- og sveitarfélagavegir 2 í einkunn. Einkunnagjöfin er niðurstaða skýrslu SI og Félags ráðgjafaverkfræðinga frá því í október en að skýrslunni komu um 70 aðilar. Mat á einstökum þátta innviða var í höndum stórra verkfræðistofa. „Við erum með fyrirmyndir að svona mati hjá öðrum þjóðum, þá sérstaklega í Noregi og Danmörku. En þetta var fyrsta heildstæða matið á þessu hér á landi.“ 

Þarf 11 milljarða á ári 

Niðurstaða matsins var meðal annars verðmiði á uppsafnaða viðhaldsþörf, sem SI telja vera um 372 milljarðar eins og fram hefur komið. „Það endurspeglast svo í mati samgönguráðherra, þar sem hann sagði uppsafnaða viðhaldsþörf í þjóðvegakerfinu vera 65 milljarðar en okkar mat var 70 milljarðar.“ Þar að auki virðist vera sem ekki sé lagt nóg til viðhalds innviða á hverju ári, sem gerir það að verkum að þessi tala hækkar ár frá ári. Við þetta bætast svo nýjar fjárfestingar, sem Ingólfur telur brýnt að ráðast í á þessu sviði. Í skjali samgönguráðherra frá 27. febrúar er sú fjárfestingaþörf metin á um 160 milljarða. Þar er meðal annars horft til breikkana á tengingum við höfuðborgarsvæðið, svo sem tvöföldun Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar í heild, fjárfesting sem Ingólfur telur mjög brýna. 

„Fólki, ferðamönnum og bílum er að fjölga og umferðin að vaxa,“ segir Ingólfur og bendir á að bílum fjölgi hraðar en fólki á Íslandi og ekki ólíklegt að þeir verði á einhverjum tímapunkti fleiri en fólk hér á landi. Það skýrist að einhverju leyti af miklum fjölda ferðamanna á Íslandi. „Þetta veldur auknum töfum í umferðinni, sem er dýrt fyrir samfélagið. Slysatíðni er líka há og hlutfallslega mörg dauðsföll í umferðinni. Þetta er því orðið mjög kostnað- arsamt fyrir okkur.“ Hann segir augljósu lausnina vera breikkun og stækkun vega og vekur athygli á að tvöföldun Reykjanesbrautar hafi dregið mjög úr slysatíðni á þeim. „Eftir tvöföldunina hefur ekkert dauðsfall orðið.“

Samhliða sé einnig hægt að fara í annarskonar aðgerðir til að létta undir með umferðinni. Í alþjóðlegum samanburði er íslenska samgöngukerfið mjög umfangsmikið og hlutur vegakerfisins og flugvalla stór. „Við þurfum að vera með góða samgönguinnviði á þessum sviðum til að vera samkeppnishæf.“ Ingólfur segir í raun ekki ágreining um hve miklu þurfi að verja í innviði. Ágreiningurinn standi hins vegar um hvenær það verður gert og hvernig það verði fjármagnað. „Vegna þess að kerfið er svo dýrt þá verðum við að forgangsraða með áherslu á verkefni sem skila okkur mestri þjóðhagslegri arðsemi. Svo þurfum við að hugsa aðrar leiðir en opinbera fjármögnun. Hið opinbera getur illa staðið eitt í þessu,“ segir Ingólfur og nefnir Hvalfjarðargöngin sem mjög vel heppnað samstarfsverkefni hins opinbera og einkaaðila. „Samvinnuleiðin, Public Private Partnership, er margreynd erlendis. Við höfum ekki oft notað hana hér en þegar það hefur verið gert er það með góðum árangri. Þá þarf þó að gæta að því að ákveðnir þættir séu til staðar. Kostirnir eru hins vegar að hið opinbera er ekki að binda fé í viðkomandi innviði, rannsóknir sýna að kostnaðar- og tímaáætlanir standist frekar og viðhaldi innviða er yfirleitt betur sinnt.“ Innviðunum er svo að endingu skilað til annaðhvort ríkis eða sveitarfélags. 

Annars konar skuldasöfnun 

Í núverandi efnahagsástandi segir Ingólfur gott tækifæri til að ráðast í viðhald og uppbyggingu innviða. „Það er að hægja tiltölulega hratt á hagvextinum og framleiðsluþættir að losna sem við getum nýtt til þessara verka og þannig dregið úr niðursveiflunni. Við verðum, vegna þess að innviðirnir eru svo mikilvægir fyrir hagvöxt og velmegun, að fara út í fjárfestingar. Það þýðir ekki að ganga á þessar eignir okkar á sama tíma og við greiðum niður skuldir og skilum afgangi. Þetta er eins og ef þú átt hús og setur allt þitt í að greiða niður skuldir. Eftir fimmtán eða tuttugu ár stendurðu uppi í skuldlausu en ónýtu húsi. Hvers virði er það eiginlega? Þetta er bara annars konar skuldasöfnun sem matsfyrirtækin missa jafnvel af. Vextirnir af þessu eru miklu hærri en vextir á lánum ríkissjóðs, sérstaklega þegar ástandið á kerfinu er eins slæmt og það er. Þegar þú sinnir þessu ekki í svolítinn tíma þá lendirðu í stöðu þar sem er varla hægt að gera við,“ segir Ingólfur.

Viðskiptablaðið, 8. mars 2018.