Fréttasafn



17. nóv. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Opinber innkaupastefna myndi ýta undir vöxt í hönnun og framleiðslu

Í hönnun geta falist einstök tækifæri til þess að skapa aukið virði. Danir hafa náð miklum árangri á þessu sviði með markvissri uppbyggingu til áratuga. Danir láta ekkert tækifæri framhjá sér fara við að koma danskri hönnun og dönskum vörum á framfæri. Þess er gætt að dönsk hönnun sé sýnileg sem víðast og má þar nefna opinberar byggingar, veitingastaði, verslanir og í kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum. Raunar hafa Danir náð svo góðum árangri að hér á landi er dönsk hönnun áberandi hjá hinu opinbera, í fyrirtækjum og á heimilum landsmanna. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í ViðskiptaMogganum. 

Hann segir að Íslendingar gætu tekið þá sér til fyrirmyndar og unnið markvissar að því að gera íslenska hönnun og framleiðslu sýnilegri en það þurfi bæði vilja og áræði til. „Það þarf að skapa skýra stefnu svo allir helstu hagsmunaaðilar verði samstiga í þeirri vegferð að gera íslenskri hönnun og framleiðslu hátt undir höfði. Draga þarf fram sérstöðu íslenskrar hönnunar og framleiðslu til að byggja upp orðspor og ímynd. Það tekur tíma og því er mikilvægt að hefjast handa sem fyrst.“

Þá segir í greininni að fjölmörg fyrirtæki á sviði hönnunar séu félagsmenn í Samtökum iðnaðarins sem og fyrirtæki sem gera hugmyndir hönnuða að veruleika líkt og í mannvirkjagerð, húsgagna- og innréttingasmíði, járnsmíði, innviðum, matvælaframleiðslu og hugbúnaðargerð svo dæmi séu tekin. „Við erum heppin að eiga hér á landi góða hönnuði og fjöldann allan af fyrirtækjum sem sinna hönnun og framleiðslu hennar vel. Þess vegna eigum við að leyfa fleirum að njóta íslenskrar hönnunar og framleiðslu, hvort sem við horfum til útflutnings eða til þess fjölda ferðamanna sem leggja leið sína til landsins.“

Í niðurlagi greinarinnar segir Sigurður að hið opinbera eigi að ganga á undan með góðu fordæmi og prýða opinberar byggingar með íslenskum húsgögnum og innréttingum, ekki síst þær byggingar sem ferðamenn og aðrir gestir leggja leið sína um og nefna megi Bessastaði í þessu sambandi. „Ef mörkuð væri opinber stefna í innkaupum þar sem áherslan væri á íslenska hönnun og framleiðslu myndi það ýta enn frekar undir vöxt á þessum sviðum og byggja upp blómlegan iðnað, jafnt í hönnun sem í framleiðslu.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.