Fréttasafn



14. ágú. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Opnað fyrir tilnefningar fyrir Hönnunarverðlaunin

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar fyrir Hönnunarverðlaun Íslands 2018. Á vef Hönnunarmiðstöðvar er hægt að senda inn ábendingar fram til miðnættis föstudagsins 14. september. Hægt er að tilnefna í tveimur flokkum. Annars vegar er um að ræða Hönnun ársins 2018 og hins vegar Besta fjárfesting ársins 2018 í hönnun.

Í fyrra var Marshall-húsið valið Hönnun ársins 2017 og Bláa lónið fékk viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu ársins 2017 í hönnun.

Hönnunarverðlaun Íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, sem hafa verið veitt af ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar. Til að hljóta þau verðlaun þurfa hönnuðir að vera félagar í einu af aðildarfélögum Hönnunarmiðstöðvar Íslands eða vera fagmenn á sínu sviði. Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning sem veitt var í fyrsta sinn 2015. Fyrirtæki sem eiga þess kost að hljóta þá viðurkenningu hafa hönnun og arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Landsvirkjun og Samtök iðnaðarins.

Á myndinni fyrir ofan afhendir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, forstjóra Bláa lónsins, Grími Sæmundsen, viðurkenninguna fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2017.

Honnunarverdlaun-2018