Fréttasafn



1. feb. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Prentiðnaður á fleygiferð

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, viðskiptastjóri framleiðslu- og matvælasviðs SI, skrifar pistil í nýjasta tölublaði Grafíu um reynslu sína af sýningunni DRUPA:


Það er best hægt að lýsa fyrstu mínútum mínum á DRUPA sem yfirþyrmandi. Fyrir framan mig voru sýningasalir á stærð við 23 fótboltavelli og skrefamælar píptu sigri hrósandi allt um kring, tilkynningar um ný met eigenda í teknum skrefum þann daginn. Ég áttaði mig fljótt á því að það voru langir en spennandi dagar í vændum. 


Sýningin stendur yfir í heila 11 daga með 1.837 sýnendum frá 54 löndum og 260.165 gestum. Fyrir utan nokkra mjög góða fyrirlestra sem vörðuðu mitt starfssvið og fundi með systursamtökum Samtaka iðnaðarins var ég fyrst og fremst mætt til að reyna að átta mig á framtíðarsýn greinarinnar, tækifærum og ógnunum og læra af reynslumiklu samferðafólki mínu. Framtíðarsýnin blasti þó nánast strax við að mínu mati þar sem tilvísanir í Industri 4.0 eða fjórðu iðnbyltinguna eins og við köllum hana voru verulega sýnilegar. Tækni­nýjungar sem lögðu áherslu á tölvu- og tæknivædda framleiðslu, vélar sem töluðu saman í gegnum allt framleiðsluferlið og skynjaratækni sem átti að því er virðist að gjörbreyta getu véla til að taka réttar ákvarðanir og þjónusta viðskiptavininn án aðkomu manna voru allt um kring. DRUPA var því ef eitt skal nefna sönnun þess að prentiðnaðurinn er tækniiðnaður á fleygiferð og í því felast að mínu mati einmitt líka helstu ógnanir og tækitæri greinarinnar.


Ör vélvæðing merkir óneitanlega að störf í greininni koma áfram til með að taka miklum breytingum á komandi árum og að því þarf að huga. Greinin þarf að reyna að átta sig á hver verður mannaflaþörf framtíðarinnar bæði hvað varðar fjölda og þekkingu. Tækifærin felast líka í þessum tækninýjungum þar sem greinin hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár með tilkomu nýrra miðla sem og að prentverk hafa í auknum mæli færst frá meginlandi Evrópa tilstaða þar sem vinnuafl kostar minna og skattar og gjöld eru lægri. Með tilkomu nýrrar tækni geta fyrirtækin sem þegar skara framúr í þekkingu á gæða- og umhverfismálum aukið vöruúrval og framleiðni á sama tíma og þau draga úr kostnaði. Þannig skapast ný tækifæri og nýir markaðir kunna að opnast líkt og gerst hefur í öðrum framleiðslugreinum. Allt þetta hangir þó áfram á því að hægt sé að tryggja stöðugt rekstrarumhverfi hér á landi þannig að innlend fyrirtæki geti staðið sig í samkeppni við önnur lönd.


Ég var himinlifandi að fá tækifæri að fara á sýninguna. Prentiðnaðurinn, sem ég er stolt að fá að vinna fyrir, er virt iðngrein hér á landi með langa og skemmtilega sögu en á DRUPA fær maður alþjóðlegt vægi greinarinnar beint í æð og það setur hlutina óneitanlega í betra samhengi.


Jóhanna Klara Stefánsdóttir, viðskiptastjóri á framleiðslu- og matvælasviði SI