Fréttasafn



18. sep. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Ræddu bygginga- og mannvirkjagerð á Norðurlöndum

Hagfræðingar hagsmunasamtaka bygginga- og mannvirkjagreinarinnar á Norðurlöndunum hittust í Árósum í Danmörk í síðustu viku til að ræða framþróun þessarar mikilvægu greinar. Rætt var um nýlega þróun og væntanlega þróun í efnahagsumhverfi greinarinnar. Einnig var rætt um vandkvæði sem fylgja afar sveiflukenndu umhverfi greinarinnar, skort á iðnmenntuðu starfsfólki, áhrif regluumhverfis á framkvæmdatíma og kostnað verka, innviðaframkvæmdir og samband lýðfræðilegrar þróunar og framboðs íbúða. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, sótti fundinn fyrir hönd Samtaka iðnaðarins.

Á Norðurlöndunum er byggingastarfsemi og mannvirkjagerð mikilvægur þáttur í efnahagsstarfseminni. Byggingar og mannvirki hér á landi líkt og á öðrum Norðurlöndum eru til vitnis um verk greinarinnar en innviðir sem greinin hefur byggt mynda lífæðar samfélags og atvinnulífs. Fyrirtæki í þessari grein sköpuðu hér á landi um 7,7% af landsframleiðslu í fyrra eða sem nemur 197 mö.kr. og í greininni störfuðu um 12.600 á síðastliðnu ári. Ný störf í greininni hafa verið mikilvæg fyrir efnahagsframvinduna en eitt af hverjum fimm nýjum störfum sem myndast hafa í efnahagsuppsveiflunni sem staðið hefur síðan 2011 hefur verið í byggingastarfsemi.

Á myndinni eru þátttakendur fundarins í ráðhúsinu í Árósum. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, er annar frá hægri.