Fréttasafn



10. apr. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Reglur sem skapa óþarfa kostnað hjá fjarskiptafyrirtækjum

Alþingi hefur mikilvægu hlutverki að gegna fyrir samkeppnishæfni Íslands. Reglurnar sem settar eru hérlendis af löggjafarvaldinu mega ekki vera óþarflega íþyngjandi og óskilvirkar enda skapar það óþarfa kostnað hjá fyrirtækjum og stofnunum. Við innleiðingu EES gerða á árunum 2013-2016 setti Alþingi í þriðjungi tilvika strangari reglur en þörf var á. Fyrirliggjandi frumvarp er enn eitt frumvarpið sem felur í sér slíka gullhúðun þar sem lagt er til að íslensk fyrirtæki sæti strangari reglum en samkeppnisaðilar á innri markaðnum. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til breytinga á lögum um fjarskipti nr. 81/2003, 390. mál. 

Í umsögninni eru gerðar athugasemdir við einstaka hluta frumvarpsins, þar á meðal þar sem fjallað er um skyldur rekstraraðila varðandi þráðlausan fjarskiptabúnað, álagningu stjórnvaldssekta og ákvæði um markaðseftirlit. Ennfremur gera samtökin athugasemd við innleiðingaraðferð sem er að mörgu leyti ónákvæm og skortir verulega á að reglurnar sem settar eru, séu einfaldar og skilvirkar. Leggja því samtökin til breytingar á frumvarpinu.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.