Fréttasafn



14. feb. 2018 Almennar fréttir

Ríflega 40 þúsund launþegar í iðnaði á síðasta ári

Ríflega 40 þúsund launþegar voru í iðnaði á síðastliðnu ári. Er þetta 21% af heildarfjölda launþega í landinu eða ríflega einn af hverjum fimm. Iðnaður er því umfangsmikill á íslenskum vinnumarkaði. Einnig hefur greinin átt stóran þátt í heildarfjölgun launþega á landsvísu undanfarin ár. 

Í fyrra fjölgaði launþegum í hagkerfinu í heild um 8.433 en af því voru 2.092 í iðnaði. Um eitt af hverjum fjórum störfum sem mynduðust í hagkerfinu á síðasta ári voru því í iðnaði. Endurspeglar hátt hlutfall greinarinnar í fjölgun launþega stóran þátt hennar í hagvexti á tímabilinu. Kemur þetta fram í tölum sem Hagstofan birti nýlega.

Launthegar-i-idnadi-nr-2

Hraður vöxtur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð

Sú grein hagkerfisins sem hefur verið að vaxa hvað hraðast undanfarin misseri er byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Voru launþegar í þeirri grein 12.575 í fyrra og fjölgaði um 1.858 á milli ára eða um 17,3%. Endurspeglar þetta m.a. þann vöxt sem var á síðasta ári í fjárfestingum í hagkerfinu í íbúðabyggingum og  hóteluppbyggingum til að mæta íbúafjölgun og fjölgun ferðamanna.

Framleiðsluiðnaður umfangsmikill

Framleiðsluiðnaður er mjög umfangsmikill á innlendum vinnumarkaði en á síðasta ári voru launþegar 17.192 í greininni þegar frá er tekinn fiskiðnaður. Lítill vöxtur hefur hins vegar verið í greininni undanfarið en launþegum fjölgaði einungis um 0,9% á árinu eða um 158. Er þetta talsverð breyting frá því sem var á fyrstu árum núverandi efnahagsuppsveiflu.

Í tækni- og hugverkaiðnaði störfuðu 13.250 í fyrra og fjölgaði störfum í greininni um 2,0% frá árinu áður eða um 258. Í þessari grein iðnaðarins hefur einnig hægt á vextinum en hann mældist 4,1% á árinu 2016.

Hækkun raungengis krónunnar dregur úr vexti

Hægari vöxt í bæði framleiðsluiðnaði og tækni- og hugverkaiðnaði  má tengja við hækkun á raungengi krónunnar og hægari hagvöxt hagkerfisins. Mikil hækkun á nafngengi krónunnar og innlendum launum langt umfram þær launahækkanir sem hafa verið hjá erlendum keppinautum hefur komið niður á samkeppnisstöðu þessara greina gagnvart erlendum aðilum. Hefur þetta vegið að markaðshlutdeild þessara fyrirtækja og þar með vexti þeirra. Önnur skýring er hægari hagvöxtur en reiknað er með að hagvöxtur hafi verið hér á landi ríflega 3% á síðasta ári samanborið við 7,4% á árinu 2016.

Launthegar-i-idnadi