Fréttasafn



25. júl. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Samtök iðnaðarins gagnrýna skipulagsyfirvöld í Reykjavík

Morgunblaðið fjallar um frestun mála hjá byggingarfulltrúa í Reykjavík sem hafi kostað fjölda fyrirtækja mikið fé og dæmi séu um að verk­tak­ar hafi gef­ist upp á skipu­lags­yf­ir­völd­um í Reykja­vík og tekið ákvörðun um að hætta upp­bygg­ingu í miðborg­inni vegna mikilla og ítrekaðra tafa á afgreiðslu mála. Í fréttinni sem Baldur Arnarson, blaðamaður, skrifar kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi sent bréf til aðstoðarmanns borgarstjóra í maí síðastliðnum þar sem kemur meðal annars fram að rúmlega helmingi mála hafi verið frestað 2015. 

Í fréttinni segir að SI hafi komið á framfæri formlegum kvörtunum yfir framgöngu byggingarfulltrúa í Reykjavík þar sem fundið er að fjölda atriða varðandi málsmeðferð og framkomu starfsfólks byggingarfulltrúa. Morgunblaðið ræddi við verktaka og veitingamenn sem hafa sömu sögu að segja þar sem framganga embættismanna hafi kostað fyrirtæki mikið fé og fjöldi verkefna tafist. Í bréfinu segir meðal annars: „Samskipti við embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík skipta félagsmenn Samtaka iðnaðarins í byggingariðnaði miklu máli. Fyrirtækin spanna allt svið byggingargreinarinnar frá hönnun til framkvæmdar. Að undanförnu hefur borið æ meir á óánægju með samskipti við embætti byggingarfulltrúa.“ Þá eru talin upp dæmi: Erfiðara sé að ná sambandi við starfsmenn, afgreiðsla mála taki lengri tíma, þjónustulund fari þverrandi, framkoma starfsmanna í garð þeirra sem þjónustu þurfa sé neikvæð, flækjustig hafi verið aukið, málum sé frestað vegna óviðeigandi athugasemda, viðvarandi óljós og margræð skilaboð séu gefin þegar málum sé frestað; þar sé jafnvel á ferð breytileg afstaða sem byggist á persónulegri afstöðu viðkomandi starfsmanns. 

Ennfremur segir í fréttinni: Máli sínu til stuðnings benda Samtök iðnaðarins á tölfræði um afgreiðslu mála hjá byggingarfulltrúa árið 2015. Vísað er til skýrslu byggingarfulltrúa um afdrif mála á 48 afgreiðslufundum árið 2015. Samkvæmt henni voru samtals 3.352 dagskrárliðir teknir fyrir árið 2015. Þar af var 1.759 dagskrárliðum frestað, eða um 52% dagskrárliða. Samtökunum reiknast til að beinn kostnaður vegna þessara frestana hafi verið allt að 165 milljónir króna árið 2015. Við þá útreikninga er horft til beins kostnaðar. Við það bætist kostnaður við tafir. Þær er erfiðara að meta til fjár. Til dæmis var fjöldi hótelherbergja tekinn síðar í notkun en ætlað var. Með þetta í huga óskuðu samtökin eftir greiningu borgarinnar á „þessari óásættanlega lélegu skilvirkni“. Í öðru lagi þurfi að leggja mat á að „hve miklu leyti megi rekja þetta ástand til slakra vinnubragða viðskiptavina embættisins“. Í þriðja lagi þurfi að „krefjast endurskilgreiningar á hlutverki embættisins frá því að vera í regluvörslu í það að vera þjónustu- og ráðgjafastofnanir í þágu borgaranna“. Í fjórða lagi þurfi að „stórbæta ráðgjöfina og samskiptin, ekki aðeins með útgáfu leiðbeininga heldur og með námskeiðum og kynningarfundum um það sem betur má fara“. 

Meðal þess sem SI gagnrýna er hversu langan tíma það taki að fá afgreidd leyfi vegna afnota af borgarlandi og tekið dæmi af því að ef verk taki tvo daga þá þurfi „framkvæmdaaðilar að bíða í allt að 30 daga eftir leyfi; leyfi sem áður voru afgreidd nánast yfir borðið meðan beðið var“. Í bréfi SI segir jafnframt: „Við höfum skilning á því að það þurfa að vera reglur, t.d. varðandi lokanir þar sem almenningsfarartæki fara um, en ef þetta á að taka svona langan tíma þá veigra menn sér við að fá leyfi og reyna heldur að gera þetta í leyfisleysi. Leyfi getur svo verið veitt ákveðinn dag en þann dag viðrar ef til vill ekki til verksins, t.d. að skipta um rúðu, og þá þurfa menn að fara aftur í biðröðina. Það hlýtur að vera hægt að stytta og einfalda þetta ferli.“

Morgunblaðið, 25. júlí 2017, mbl.is.