Fréttasafn



6. nóv. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

Sex sprota- og tæknifyrirtæki kynna sig á Fast 50 viðburðinum

Sex sprota- og tæknifyrirtæki hafa verið valin til að taka þátt í alþjóðlegu keppninni Rising Star sem Deloitte í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Félag kvenna í atvinnulífinu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands standa fyrir hér á landi. Fyrirtækin eru Platome Líftækni ehf., SidekickHealth, Kara Connect ehf., Activity Stream, DT Equipment ehf. og Gerosion ehf. 

Fjöldi skráninga barst í keppnina og hefur dómnefnd valið fyrrnefnd sex fyrirtæki til að kynna starfsemi sína á sérstökum Fast 50 viðburði fimmtudaginn 9. nóvember í Nauthól kl. 17.00. Þetta er í þriðja sinn sem viðburðurinn er haldinn hér á landi. Að kynningum loknum velur dómnefndin tvö fyrirtæki sem sigra og fá þau að launum ferð á Slush fjárfestaráðstefnu í Helskinki sem fram fer í lok nóvember næstkomandi. Sigurvegurunum stendur einnig til boða að funda með innlendum fjárfestingarsjóðum til að ræða stefnu fyrirtækjanna, vaxtarhorfur og möguleg tækifæri.

Á viðburðinum verður einnig birtur Fast 50 listinn þar sem tiltekin eru þau tæknifyrirtæki sem hafa vaxið hvað hraðast hér á landi. Fulltrúa þess fyrirtækis sem verður efst á Fast 50 listanum verður einnig boðið á fjárfestaráðstefnuna í Helsinki.

Skráning á viðburðinn fer fram á fast50@deloitte.is. Enginn aðgangseyrir. Léttar veitingar verða í boði og dj. flugvél og geimskip þeytir skífum.