Fréttasafn



11. maí 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

SI mótmæla auknum álögum á gosdrykki

Samtök iðnaðarins, SI, mótmæla tillögum Embættis landlæknis um að auka álögur á gosdrykki og hefur bréf þess efnis verið sent á fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra. 

Fyrir afstöðu SI liggja eftirtaldar ástæður:

Sérstök skattlagning einstakra vöruflokka felur í sér mismunun og skerðir samkeppnisstöðu þeirrar greinar sem í hlut á. SI hafa ávallt barist fyrir jafnræði á markaði og að þar ríki almennar og einfaldar reglur. Benda má á að íslensk stjórnvöld hafa reynt hvoru tveggja, sértæka skattheimtu af stökum vöruflokkum og almenna skattlagningu á sykri í matvælum, til að stýra neyslu almennings. Hvorugt hefur skilað þeim árangri sem að var stefnt og einungis haft í för með sér umtalsverðan kostnað og óhagræði sem bæði hefur komið niður á fyrirtækjum og almenningi.

SI leggjast gegn því að færa gosdrykki í efra þrep virðisaukaskatts

SI töldu það mikið framfaraskref þegar öll matvæli voru færð í sama virðisaukaskattsþrep árið 2007 en með því var kerfið gert hagkvæmara og skilvirkara fyrirtækjum og almenningi til heilla. Samtökin leggjast eindregið gegn því að farið verði aftur í fyrra kerfi óhagræðis, forræðishyggju og mismununar með því að færa gosdrykki aftur í efra þrep virðisaukaskatts.

SI telja fráleitt að taka aftur upp vörugjöld á matvæli

Þegar almenn vörugjöld voru afnumin í ársbyrjun 2015 var það til mikilla hagsbóta, bæði fyrir atvinnulífið og hið opinbera, vegna einföldunar á skattkerfinu og lægri kostnaðar kerfisins fyrir efnahagslífið. SI telja fráleitt að taka aftur upp vörugjöld á matvæli með tilheyrandi kostnaði. Ekki aðeins hækkar það verð þeirra vara sem fyrir því verða heldur eykur það kostnað við kerfið sem slíkt sem á endanum kemur niður á samkeppnishæfi fyrirtækja og eykur kostnað neytenda og hins opinbera.  

Dregið hefur úr neyslu sykraðra gosdrykkja

SI benda á að mikil breyting hefur orðið á neyslu landsmanna á síðustu árum á þann veg að dregið hefur úr neyslu sykraðra gosdrykkja en á móti hefur aukist neysla kolsýrðra vatnsdrykkja. Fyrirtækin í greininni hafa verið bæði þátttakendur og gerendur í þessari þróun með auknu framboði af kolsýrðum vatnsdrykkjum.

Unnið er með rangar upplýsingar 

Vilja SI beina því til stjórnvalda að vinna með réttar upplýsingar þegar fjallað er um þátt gosdrykkja í sykurneyslu landsmanna. Einungis með réttum upplýsingum er hægt að móta ábyrga afstöðu. Sykurneysla er í gögnum Embættis landlæknis reiknuð út frá seldum lítrum af öllum kolsýrðum drykkjum s.s. gosdrykkjum með sætuefni og kolsýrðum vatnsdrykkjum án allrar sætu. Ályktanir um þátt gosdrykkja í sykurneyslu byggðar á slíkum upplýsingum eru augljóslega rangar. Samkvæmt tölum sem Embætti landlæknis notar þá kemur 1/3 af sykri frá gosdrykkjum en samkvæmt upplýsingum frá aðildarfyrirtækjum SI í þessari starfsemi er hlutfallið nær því að vera um 1/6. Í þessu sambandi telja SI einnig mikilvægt að gerð verði ný landskönnun á mataræði allra aldurshópa til að betur megi átta sig á þætti þess í lýðheilsu landsmanna.