Fréttasafn



10. maí 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Lögfræðileg málefni

SI og SA fagna frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra

Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins skiluðu sameiginlegri umsögn um frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (EES-reglur, losun frá iðnaði og skráningarskylda), 376. mál. Samtökin styðja að frumvarpið verði að lögum og fagna því að í greinargerð sé boðað að áfram skuli unnið að úrbótum á lögunum og sérstaklega á skipulagi eftirlits með atvinnustarfseminni. Samtökin lýsa sig reiðubúin til samstarfs um þá vinnu. 

Samtökin fagna þeirri breytingu að starfsleyfi verði ótímabundin með endurskoðunarákvæðum í stað þess að þau séu gefin út til tiltekins tíma. Þau fagna því jafnframt að koma eigi upp einni gátt hjá Umhverfisstofnun þar sem fyrirtækin skrá upplýsingar um fyrirhugaða starfsemi, fá leiðbeiningar um þær skyldur sem þau eiga að uppfylla og stefnt sé að því að einungis fyrirtæki sem uppfylla ákveðin skilyrði þurfi starfsleyfi en í öðrum tilvikum nægi skráningin ein.

Í umsögninni segir meðal annars að samtökin hafi lengi kallað eftir breytingu sem þessari. Þeir sem ætla að hefja rekstur fá upplýsingar á einum stað um skilyrði sem uppfylla þarf. Starfsleyfis hefur verið krafist hér fyrir mun fleiri fyrirtæki en tíðkast í nálægum löndum en þar hefur þróunin undanfarin ár verið sú að einfalda alla ferla við stofnun fyrirtækja án þess að slá af kröfum og skilyrðum sem þau þurfa að uppfylla í umhverfismálum. Engin hætta er á að þótt heilbrigðiseftirlitið hætti að gefa út starfsleyfi að fjárhagslegum grundvelli verði kippt undan þeirra starfsemi. Þau innheimta allan kostnað sem til fellur hjá rekstraraðilum og ef tekst að ná sparnaði með því að fækka leyfum þá er það vel.

Í niðurlagi umsagnarinnar segir jafnframt að frumvarpið marki ákveðin tímamót þar sem í fyrsta skipti í langan tíma sé lögð til breyting til raunverulegrar einföldunar á rekstrarumhverfi fyrirtækja sem þó muni ekki bitna á öryggi almennings né hafa neikvæð áhrif á umhverfið. Heldur sé í raun verið að einfalda aðgengi fyrirtækja að upplýsingum um skilyrði sem tiltekinn rekstur þarf að uppfylla þar sem einungis áhættumeiri rekstur muni þurfa starfsleyfi. Þetta sé í góðu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um opnari og aðgengilegri stjórnsýslu og einnig um betra rekstrarumhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. 

Hér má nálgast umsögn SA og SI um frumvarpið.

Breytingar á útgáfu starfsleyfa

Moggi-10.-mai-2017Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag kemur fram að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga bregðist ókvæða við frumvarpinu ef marka megi fjölda umsagna sem borist hafa umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis seinustu daga. Þar kemur fram að verði frumvarpið að lögum muni útgáfa starfsleyfa í atvinnulífinu flytjast til Umhverfisstofnunar og leiða til þess að umsvif heilbrigðisnefnda við útgáfu starfsleyfa minnki á næstu misserum og falli niður frá og með 1. janúar 2019 þegar Umhverfisstofnun taki við skráningum frá rekstraraðilum um rafræna gátt. Markmiðið sé einföldun í stjórnsýslunni sem á að leiða til þess að viðmót og aðgengi almennings að henni batni. Í fréttaskýringunni kemur fram að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins lýsi stuðningi við frumvarpið og fagni þeirri breytingu að starfsleyfi verði framvegis ótímabundin með endurskoðunarákvæðum í stað þess að þau séu gefin út til tiltekins tíma. Þá sé mjög til bóta að koma eigi upp einni gátt hjá Umhverfisstofnun þar sem fyrirtæki skrá fyrirhugaða starfsemi og að einungis fyrirtæki sem uppfylla ákveðin skilyrði þurfi starfsleyfi en í öðrum tilvikum nægi skráningin ein.