Fréttasafn



2. feb. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

SI skora á borgaryfirvöld að birta lista yfir lausar lóðir

Í fréttum að undanförnu hefur komið fram að þúsundir íbúða þarf að byggja á höfuðborgarsvæðinu til að jafnvægi myndist á húsnæðismarkaði. Það hefur komið fram að úthluta þurfi fleiri lóðum og skipuleggja ný hverfi til þess að mæta uppsafnaðri þörf en borgarstjóri sagði í fréttum RÚV í fyrrakvöld að áhyggjur sínar snéru að því að ekki sé nógu mikið af stórum og öflugum verktökum til að takast á við verkefnin og að skortur á byggingarkrönum og mannskap hamli uppbyggingu íbúða. 

Í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, að Samtök iðnaðarins skori á borgaryfirvöld að birta lista yfir lóðir sem hægt er að hefja byggingu á og að það muni ekki standa á verktökum að annast þau verkefni. „Í samtölum okkar við verktaka kemur í ljós að þau ummæli borgarstjóra að það vanti krana og mannskap til að byggja meira standast ekki skoðun. Það vantar hvorki krana né mannskap. Það sem er skortur á eru lóðir.“ 

Hann segir að kranar séu ekki takmarkandi þáttur þar sem verkefni eru skipulögð fram í tímann og það tekur einungis 3-4 vikur að koma nýjum byggingarkrana á svæðið tilbúnum til vinnu. „Eins og stendur er verið að taka niður stóra krana sem munu fara í geymslu vegna skorts á verkefnum. Verktakar innan raða Samtaka iðnaðarins segja engin vandræði að fá starfsfólk.“ segir Sigurður. Morgunblaðið, 2. febrúar. 

 

Mannvirkjageirinn er reiðubúinn í frekari uppbyggingu

Í grein sem Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, skrifaði fyrir stuttu í ViðskiptaMoggann kemur fram að mannvirkjageirinn sé reiðubúinn í frekari uppbyggingu því greinin á langt í land með að ná þeim umsvifum sem voru hér á landi fyrir áratug síðan. Á síðasta ári voru að meðaltali um 12.360 launþegar í greininni á fyrstu tíu mánuðum ársins. Árið 2008 voru hins vegar 16.280 starfandi í greininni eða um 4.000 starfsmönnum fleiri en 2017.

Verktakar segja hvorki skort á byggingakrönum né á mannafla

  • Byggingakranar eru ekki takmarkandi þáttur þar sem verkefni eru skipulögð vikur eða mánuði fram í tímann. Eins og stendur er verið að taka niður stóra krana sem munu fara í geymslu vegna skorts á verkefnum. Verktökum eru reglulega boðnir kranar til kaups þar sem þeir eru ekki í notkun. Annars tekur 3-6 vikur að koma nýjum byggingarkrana á vinnusvæði.
  • Heilt yfir er ekki vandamál að fá fólk til starfa. Hingað koma starfsmenn erlendis frá og starfa við hlið innlendra starfsmanna. Sumir segjast vera með innlenda menntaða iðnaðarmenn á biðlista en verkefnastaðan bjóði ekki upp á að ráða þá til vinnu. Einnig eru verktakar að leita að verkefnum eftir 5 til 6 mánuði fyrir það starfsfólk sem það er nú þegar með í vinnu.
  • Áhugavert að setja þetta í samhengi en sem dæmi má nefna að stór verktaki sem nú er að byggja 200 íbúðir er með 55 smiði í vinnu. Það þýðir að það þarf í kringum 500 manns til að byggja 2.000 íbúðir. Sem fyrr segir voru um 4.000 fleiri starfandi við bygginga- og mannvirkjagerð fyrir áratug síðan en á síðasta ári þannig að getan er sannarlega til staðar.