Fréttasafn



19. okt. 2016 Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

SI telja gjaldtöku vegna gáma í Hafnarfirði ólöglega

Í bréfi sem Samtök iðnaðarins senda til Sigríðar Kristinsdóttur, bæjarlögmanns Hafnarfjarðarbæjar, um veitingu stöðuleyfa hjá Hafnarfjarðarbæ eru athugasemdir gerðar við ranga innleiðingu Hafnarfjarðarbæjar á stöðugjöldum auk þess sem samtökin telja túlkun bæjaryfirvalda á þeim reglum sem gilda um stöðuleyfi vera ranga og ganga of langt. Þá gera samtökin einnig athugasemdir við gjaldskrá Hafnarfjarðarbæjar um stöðuleyfi fyrir gám þar sem umrædd gjaldskrá sé ekki byggð á lögmætum grunni og að framkvæmd innheimtu sé ekki í samræmi við lög. Í bréfinu segir jafnframt að samtökin séu að kanna hvernig staðið er að innheimtu stöðugjalda í öðrum sveitafélögum en ljóst sé að þessi gjaldheimta á sér ekki stað í öllum sveitarfélögum. Þá segir að ef framkvæmdin reynist athugaverð í fleiri sveitafélögum komi það ekki í veg fyrir að Hafnarfjarðarbær gangi á undan með góðu fordæmi og lagfæri verklag sitt. Gjald fyrir allar stærðir gáma er 31.780 krónur á ári. Samtökin óska eftir því að innleiðing Hafnarfjarðarbæjar á stöðuleyfum verði strax tekin til endurskoðunar.

Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs SI, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að samtökin hefðu fullan skilning á því að Hafnarfjarðarbær vildi taka á því þegar gámar standa í bænum þar sem ekki er gert ráð fyrir þeim og þeir eru til ama. „Við teljum hins vegar að Hafnarfjarðarbær gangi mjög langt í gjaldtöku sinni og sé að innheimta af gámastæðum á iðnaðarlóðum, þar sem dagsdaglega er verið að vinna með gáma, ferma þá og afferma vörur hjá framleiðslufyrirtækjum sem eru að taka við hráefni og senda frá sér vörur. Við teljum að þessi gjaldtaka bæjarins eigi ekki við um slíka starfsemi. Svona starfsemi með gáma er bara eðlileg umsýsla með gáma inni á iðnaðarlóð.“  

Bréfið til Hafnarfjarðarbæjar. 

Fréttin í Morgunblaðinu.