Fréttasafn



16. mar. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

SI vilja einfalda og bæta byggingareftirlit

Að mati Samtaka iðnaðarins er sú leið að fela faggiltum skoðunarstofum eftirlit til þess fallin að auka kostnað og tíma við framkvæmd og hönnun verks, án þess að slíkt leiði til aukinna gæða í eftirliti. Að mati samtakanna eru aðrar leiðir ákjósanlegri til að ná þeim markmiðum að gera eftirlit með byggingarframkvæmdum skilvirkara samfara því að draga úr opinberu eftirliti og lækka byggingarkostnað. Bæta og einfalda þarf byggingareftirlit með það að markmiði að það virki eins og best verður á kosið fyrir alla hlutaðeigandi, s.s. eigendur mannvirkis, framkvæmdaraðila, hönnuði, leyfisveitendur og neytendur. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki nr. 160/2010, 185. mál.

Í umsögninni segir jafnframt að samtökin telji brýna þörf fyrir breytingar á eftirlitskerfinu í heild sinni með það fyrir augum að einfalda kerfið til muna. Í því samhengi telji samtökin áhugavert að skoða þá leið að byggingarfulltrúar hætti að fara yfir uppdrætti og hætti þannig samtímis að innheimta kostnað fyrir slíkt. Þá verði uppdrættir, greinargerðir, skoðunarlistar og önnur þau gögn sem liggja þurfa fyrir samkvæmt byggingarreglugerð, lögð inn á gagnagátt Mannvirkjastofnunar sem nú er í smíðum. Verk færi ekki á næsta stig í leyfisferlinu nema tilskildum gögnum hafi verið skilað inn í gáttina en eftirlit með því að gögnum væri skilað inn yrði hjá leyfisveitendum.

Í niðurlagi umsagnarinnar kemur fram að Samtök iðnaðarins telja að einföldun regluverks utan um byggingareftirlit muni leiða til þess að því sé betur fylgt eftir í framkvæmd og eru raktar ákveðnar grunnhugmyndir um það hvernig hægt er að ná þeim markmiðum að einfalda byggingareftirlit og lækka byggingarkostnað samhliða því að auka gæði í mannvirkjagerð. Þá segir að það sé von samtakanna að innleggið verði upphafið að samtali stjórnvalda og hagsmunaaðila um að einfalda og betrumbæta byggingareftirlit til muna og taka kröfuna um faggildingu eftirlitsaðila og faggiltar skoðunarstofur til algjörrar endurskoðunar þar sem umrætt ástand er að mati samtakanna óásættanlegt. Samtökin leggja til að skipaður verði þverfaglegur starfshópur til að leggjast yfir þessi mál og lýsa yfir vilja sínum til að taka þátt í slíkri vinnu.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.