Fréttasafn



28. apr. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Skýrsla að norrænni fyrirmynd um stöðu innviða hér á landi

Samtök iðnaðarins í samstarfi við Félag ráðgjafarverkfræðinga hyggjast ráðast í gerð ítarlegrar skýrslu að norrænni fyrirmynd sem fjallar um stöðu innviða hér á landi en skýrslan kallast jafnan State of the Nation. Þetta kemur fram í umsögn SI um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022, mál nr. 402. Þar segir að útgáfa skýrslunnar marki grundvöll að umræðu á vettvangi stjórnmála og samfélagsins alls um stöðu innviða. Jafnframt kemur fram að óumdeilt sé að ástand og uppbygging innviða sé nátengd samkeppnishæfni landsins og séu í reynd lífæð heilbrigðs samfélags. Þrátt fyrir að vel hafi árað í efnahagslífinu síðustu ár hafi innviðafjárfesting verið lítil og að óbreyttu séu horfurnar ekki góðar. Telja samtökin að vinna af þessum toga geti verið mikilvægt framlag til fjármálaáætlunar.