Fréttasafn



18. jan. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Smæð Kvikmyndasjóðs stendur aukinni framleiðslu fyrir þrifum

Íslenskar kvikmyndir og þættir eru eins og spegill á þjóðina og skipta máli fyrir sjálfstæði okkar í hinum stóra heimi. En smæð Kvikmyndasjóðs og reglur um skiptingu úr sjóðnum standa aukinni framleiðslu íslensks sjónvarpsefnis fyrir þrifum. Það er mikilvægt fyrir okkur að marka stefnu í þessum efnum og rækta Ísland sem vörumerki til að gera Ísland og íslenskt efni eftirsóknarverðara. Þetta segir Kristinn Þórðarson, framleiðandi hjá framleiðslufyrirtækinu Truenorth og formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, meðal annars í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. SÍK sem er aðili að Samtökum iðnaðarins vinnur að því að efla íslenska kvikmyndagerð en alls eru 35 framleiðendur innan sambandsins. 

Kvikmyndagerð á Íslandi leiðir af sér umtalsverða verðmætasköpun í hagkerfinu

Kristinn segir í viðtalinu að mikil gróska hafi verið í kvikmynda og sjónvarpsþáttagerð á Íslandi á undanförnum árum, velta hafi margfaldast og Ísland njóti mikilla vinsælda sem tökustaður fyrir erlendar stórmyndir, sjónvarpsþætti og myndbönd. Hann segir að íslenskt sjónvarpsefni hafi átt mjög góðu gengi að fagna, einkum í útlöndum, og sé kvikmyndagerð á Íslandi umfangsmikil atvinnugrein sem leiði af sér umtalsverða verðmætasköpun í hagkerfinu. „Þetta er orðinn alvöru iðnaður, það fer ekki á milli mála.“ 
Í Viðskiptablaðinu kemur fram að velta í kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu á Íslandi hafi numið rúmlega 5 milljörðum króna árið 2010 og hafi aldrei verið meiri en árið 2016 þegar hún var 20 milljarðar. Undanfarinn áratug hafi veltan rúmlega fjórfaldast og nemi samanlögð velta kvikmyndaiðnaðarins yfir 100 milljörðum á tímabilinu. 

Skattalegir hvatar laða kvikmyndagerðarverkefni til landsins 

Í viðtalinu segir að skattalegir hvatar hafi átt drjúgan þátt í að laða hingað til lands erlend verkefni en framleiðendur kvikmynda- eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga kost á endurgreiðslum á allt að 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi, ef framleiðslan er til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru, eða stuðla að aukinni reynslu og þekkingu íslensks kvikmyndagerðarfólks. Á árinu 2016 voru endurgreiðslur til 40 verkefna tæplega milljarður.

Viðskiptablaðið, 18. janúar 2018.