Fréttasafn



29. nóv. 2016 Iðnaður og hugverk

Stefna mótuð fyrir nýtt Framleiðsluráð SI

Aðildarfyrirtæki SI í framleiðslugreinum komu saman í gær á Vox Club til að móta stefnu nýs Framleiðsluráðs SI. Hátt í 40 manns tóku þátt í stefnumótuninni en Þórey Vilhjálmsdóttur, sérfræðingur hjá Capacent, stýrði vinnunni. Auk þess var Rán Flygenring teiknari á staðnum og greip hugmyndir á lofti sem hún færði í myndrænan búning. Framleiðsluráð SI er hugsað sem vettvangur fyrir samstarf ólíkra framleiðslufyrirtækja innan samtakanna þar sem markmiðið er að ná betur utan um framleiðslugreinar sem heild, mynda breitt bakland og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum hópsins. Um 230 fyrirtæki tilheyra framleiðslu- og matvælasviði SI sem er eitt af þremur sviðum samtakanna. Framleiðsluráð SI mun starfa með svipuðum hætti og Hugverkaráð SI sem er innan hugverkasviðs SI og Mannvirkjaráð SI innan bygginga- og mannvirkjasviðs SI.

Framleiðslufyrirtæki eru mikilvæg stærð í hagtölum á Íslandi en þau velta 685 milljörðum króna á ári, eru með um 14.500 starfsmenn í vinnu og flytja út iðnaðarvörur fyrir 331 millljarð króna árlega. Dæmi um framleiðslu sem aðildarfyrirtæki á framleiðslu- og matvælasviði SI fást við eru matvæli, fóður, umbúðir, húsgögn, innréttingar, byggingavörur, tæki og vélar, prentverk og vinnsla úr endurvinnsluefnum og málmum.

Myndir frá fundinum er hægt að skoða á Facebook SI.