Fréttasafn



21. okt. 2016 Iðnaður og hugverk

Stefnir í metár í íslenskum kvikmyndaiðnaði með tvöföldun á veltu

Það stefnir í metár í íslenskum kvikmyndaiðnaði en búast má við að velta í framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni hér á landi muni tvöfaldast á þessu ári ef mið er tekið af veltu á fyrstu sex mánuðum ársins. Áætluð velta þessa árs er 24,4 milljarðar króna í samanburði við 11 milljarða króna veltu á síðasta ári en þegar horft er á tímabilið janúar til júní á þessu ári eru umsvifin þegar orðin tvöföld á við það sem var á sama tíma í fyrra. Frá árinu 2008 hafa umsvifin á þessum markaði fimmfaldast en árið 2008 var veltan rúmir 4,4 milljarðar króna.

Kristinn Þórðarson, framleiðandi hjá Truenorth og formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK), segir mikla grósku í íslenskri kvikmyndagerð en staðreyndin sé að veltuaukninguna megi nær eingöngu rekja til þess að undanfarin ár hafi verið gríðarlegur áhugi erlendra framleiðenda á að koma til Íslands. „Árið 2016 er engin undantekning því hingað kemur hver stórmyndin af annarri. Kvikmyndagerðarfólk Fast and Furious voru við tökur í vetur norður í landi og framleiðendur Fortitude komu aftur til Íslands í tökur á þáttaröð númer tvö. Seinni part ársins hafa fjögur bandarísk stórverkefni komið til landsins.“ Kristinn segir áhrif þessara verkefna á Ísland vera mjög jákvæð og nægi að nefna aukningu ferðamanna auk beinna tekjutengdra áhrifa sem dreifist á alla landsbyggðina því verkefnunum fylgja yfirleitt tökur utan höfuðborgarsvæðisins. „Erlendir framleiðendur og leikstjórar eru fyrir löngu búnir að uppgötva hversu stórfengleg íslensk náttúra er og nýta sér það við gerð sinna mynda á meðan fjármagn til íslenskra kvikmynda er svo takmarkað að íslenskir framleiðendur hafa ekki efni á að fara langt út fyrir sitt nærsvæði og nýta náttúruna á sambærilegan hátt. Þess vegna er brýnt að styðja betur við uppbyggingu íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsgerðar með hærri fjárframlögum enda er þetta orðinn einn öflugasti miðill í heiminum. Það þarf að auka framleiðslu á íslensku efni bæði fyrir heimamarkað og sem útflutningsvöru en það hefur sýnt sig að útlendingar er sólgnir í íslenskt efni.“

Guðný Guðjónsdóttir, forstjóri Sagafilm, tekur undir orð Kristins og segist finna fyrir stórauknum áhuga hjá erlendum dreifingaraðilum og sjónvarpsstöðvum á íslensku efni í kjölfar vel heppnaðra sjónvarpsþáttaraða líkt og Réttur og Ófærð. „Nordic Noir, íslenskt umhverfi, íslenskar sögur og tónn er vinsælt efni um þessar mundir. Við þurfum að hamra járnið á meðan það er heitt, styrkja Kvikmyndasjóð enn frekar og stórauka framleiðslu á íslensku efni bæði fyrir íslenska þjóð sem og fyrir erlenda dreifingu. Kvikmyndagerðin hefur verið að eflast mikið síðastliðin ár bæði í gæðum og fagmennsku en við höfum tækifæri til að gera enn betur, framleiða meira og dreifa víðar. Við eigum að leggja áherslu á íslenskt hugverk og hinn sterka miðil sem sjónvarpið er.“