Fréttasafn



27. apr. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Stefnt að vistvænni borgum og grænni innviðum

Framtíðarsýnin er skýr, við stefnum að því að borgir verði vistvænni, innviðir grænni og byggingar betri. Til að ná árangri þarf margar litlar breytingar og huga þarf að skipulagi, hönnun og ótal smáatriðum í framkvæmdum. Þetta kom meðal annars fram í erindi Bryndísar Skúladóttur, sviðsstjóra framleiðslusviðs SI, en hún var meðal fyrirlesara á málþingi um græna byggð sem haldið var í Veröld - húsi Vigdísar í gær 26. apríl, en sá dagur er Vistbyggðardagurinn. Erindi Bryndísar bar yfirskriftina Staðan og framtíðaráskoranir í byggingariðnaði. Auk Bryndísar voru fjölmargir innlendir og erlendir fagaðilar sem fluttu erindi. 

Stór hluti af byggingarúrgangi fer í endurnýtingu hér á landi

Í erindi sínu tók Bryndís dæmi um breytingar sem í vændum eru varðandi úrgangsmál þar sem meiri áhersla er á hringrásarhugsun, að hanna og byggja þannig að ending sé góð, auðvelt sé að taka hluti í sundur og koma hráefnum aftur í vinnslu. Hún sagði að til staðar þurfi að vera farvegir fyrir úrgang sem taki við efnum til endurvinnslu. Markmiðið er að minni úrgangur verði til og meira fari til endurvinnslu. Nú þegar fer stór hluti af byggingarúrgangi í endurnýtingu hérlendis, t.d. landmótun.

Aðkallandi að leysa rafhleðslu í fjölbýlum

Bryndís fjallaði einnig um orkuskipti og að framundan væru breytingar á skattlagningu á ökutæki. Orkuskipti geti orðið erfið fyrir mörg tæki í byggingageira því lengra er í vistvænar bifreiðar í stærri kantinum en litla fjölskyldubíla. Hvatar sem settir eru í löggjöf þurfa að taka mið af þessu. Orkuskipti skapar verkefni fyrir hönnuði og verktaka. Nú þegar er komin fram mikil eftirspurn eftir rafhleðslum við hús og er aðkallandi verkefni að leysa það í til dæmis fjölbýlum.

Mögulega aukin þátttaka neytenda í raforkumarkaði

Nokkrar tillögur eru komnar fram um breytingar á Evrópulöggjöf sem miða að aukinni þátttöku neytenda í raforkumarkaði, þannig að einstaklingar og hópar geti framleitt orku til eigin nota og selt umframorku inn á kerfin. Þannig er þess vænst að endurnýjanlegir orkugjafar eigi greiðari aðgang inn á kerfið. Framtíðin mun leiða í ljós hvort þetta verði veruleiki hérlendis.

Kemst orkunýtni í tísku?

Bryndís velti því upp hvort orkunýtni verði komin í tísku innan fárra ára. Framundan er aukin snjallvæðing sem gerir neytendum kleift að fylgjast betur með orkunotkun heimila og vera virkari notendur. Orka er ekki ókeypis og með aukinni vitund um umhverfisáhrif neyslu almennt, betri upplýsingum um notkun getur kviknað áhugi hjá almenningi fyrir möguleikum til orkusparnaðar.  

Hér er hægt að nálgast glærur Bryndísar frá fundinum.


Bryndis-26-04-2018