Fréttasafn



26. apr. 2017 Almennar fréttir Menntun

Stelpur og tækni í HR á morgun

Um 400 stelpur úr grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu koma í heimsókn í HR á morgun fimmtudaginn 27. apríl til að kynna sér fjölbreytt tæknileg viðfangsefni og starfsmöguleika í tæknifyrirtækjum. Viðburðurinn Stelpur og tækni er nú haldinn í fjórða sinn í samstarfi Háskólans í Reykjavík, SKÝ og Samtaka iðnaðarins. Markmiðið er að vekja áhuga stelpna á fjölbreyttum möguleikum í tækninámi og störfum, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tæknigeiranum og brjóta niður staðalímyndir. Um miðjan maí fá stelpur á Ísafirði, Akureyri og í Fjarðabyggð og nágrenni einnig að kynnast tæknigeiranum á Stelpum og tækni í sinni heimabyggð, á vegum HR.

Í HR sækja stelpurnar vinnusmiðjur í umsjá Skema, /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR, og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar HR. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og stelpurnar munu meðal annars kynnast mælingum á heilabylgjum með heilarita, mæla burðarþol kjúklingabeina, glíma við vefforritun og búa til rafmótor. Síðan fara stelpurnar í heimsókn í tæknifyrirtæki þar sem konur sem starfa hjá fyrirtækjunum miðla af reynslu sinni, veita þeim innsýn í í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi.

Þau fyrirtæki sem stelpurnar heimsækja í ár eru: Marel, Eimskip, CCP, Síminn, Icelandair, Advania, Reiknistofa bankanna, Össur, Opin kerfi, Íslandsbanki, LS Retail, Meniga, Landsvirkjun, Syndis, Microsoft og Valitor.

„Girls in ICT Day“ er haldinn víða um Evrópu í apríl á hverju ári í tengslum við Digital Agenda-áætlunina. HR hefur haldið utan um daginn hér á landi frá upphafi. Stelpur og tækni er styrkt af Jafnréttissjóði og Framkvæmdasjóði jafnréttismála.