Fréttasafn



26. sep. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Stjórn FRV skorar á stjórnvöld að lækka tryggingagjaldið

Stjórn Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun um lækkun tryggingagjalds:

Stjórn FRV lýsir yfir miklum vonbrigðum með að enn er tryggingagjald hér á landi of hátt og ekkert bólar á áformum um að lækka það þrátt fyrir að atvinnuleysið hafi nær horfið. Það eru gríðarleg vonbrigði að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 skuli ekki sjá stað samkomulag stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins um lækkun tryggingagjalds í áföngum sem gert var í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum markaði í byrjun árs 2016.

Samkomulagið fól í sér lækkun tryggingagjalds um 0,5% á árinu 2016 og 0,5% á árinu 2017 sem síðan varð ekkert af. Jafnframt var handsalað samkomulag við fjármálaráðherra um að stefnt skyldi að því að almenna tryggingagjaldið færi í fyrra horf, þ.e. í 4,5%, á árinu 2018, enda skapi lækkun vaxtabyrði ríkissjóðs samhliða lækkun skulda ríkisins svigrúm til lækkunar gjaldsins. Það var sameiginlegur skilningur á að lækkun tryggingagjaldsins til fyrra horfs væri fyrirtækjum mikilvægt til að mæta miklum kostnaði við umsamdar launahækkanir og jöfnun lífeyrisréttinda án þess að raska efnahagslegum stöðugleika. Það lá ljóst fyrir að kjarasamningarnir myndu ganga mjög nærri getu fyrirtækja og að mótvægisaðgerðir stjórnvalda væru nauðsynlegar til að kostnaðaraukinn færi ekki að stórum hluta út í verðlag.

Mikilvægt er að færa gjaldið  niður til þess sem það var áður en atvinnuleysi jókst skyndilega í kjölfar hrunsins 2008. Tryggingagjald er lagt á launakostnað fyrirtækja og samanstendur af almennu tryggingagjaldi og atvinnuleysistryggingagjaldi. Í heild sinni er gjaldið 6,85% af öllum launagreiðslum í landinu. Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem kostnaður einskorðast  fyrst og fremst við laun og launatengd gjöld eins og hjá verkfræðistofum og öðrum tæknifyrirtækjum. Hátt tryggingagjald dregur úr afli fyrirtækja til að ráða til sín fleiri starfsmenn og veikir einnig samkeppnishæfni þeirra við erlend fyrirtæki.

Hækkun tryggingagjalds var hugsuð sem tímabundin aðgerð til að standa straum af skyndilegu atvinnuleysi, nú þegar það á ekki lengur við er brýnt að lækka gjaldið. Stjórn FRV skorar því á stjórnvöld að lækka tryggingagjaldið sem fyrst.