Fréttasafn



5. sep. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Styrking krónunnar hefur áhrif á kvikmyndagerð á Íslandi

Í Morgunblaðinu í dag fjallar Baldur Arnarson, blaðamaður, um áhrif styrkingar krónunnar á kvikmyndagerð á Íslandi. Rætt er við Leif B. Dagfinnsson, framleiðanda hjá True North, sem segir umsvif erlendra kvikmyndaverkefna hafa dregist verulega saman í ár og er helsta ástæðan hátt gengi krónunnar. „Ísland er ekki lengur samkeppnishæft. Í stað þess að fá hingað heilt kvikmyndatökulið sem telur 150-300 manns erum við kannski að fá 20- 30 manna teymi sem kemur í þyrlutökur og smærri verkefni. Við misstum til dæmis umfangsmikið verkefni í fyrra sem hefði orðið hvalreki fyrir kvikmyndageirann. Ísland var orðið of dýrt. Sagan endurtekur sig. Kúrfan fer upp og niður. Ástandið er farið að minna á 2007.“

Leifur segir að 25% endurgreiðsla dugi ekki. „Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi í fyrra hækkað endurgreiðslu á kvikmyndagerð um 25% dugar það ekki til. Raunar þyrfti líklega að hækka hlutfallið svo við getum haldið stöðu okkar miðað við önnur lönd til að mæta þessari verðbólgu á vöru og þjónustu á Íslandi. Það hefur hægt mjög á fyrirspurnum að utan. Við náðum að gera eina seríu fyrir Netflix fyrr á árinu. True North í Noregi er hins vegar að sinna 3-4 verkefnum í Noregi. Það segir sína sögu. Það fór að hrikta í stoðunum þegar dollarinn fór undir 100 krónur. Styrking krónunnar gagnvart pundi og dollaranum hefur vegið þungt.“

Einnig er rætt við Snorra Þórisson, forstjóra Pegasus, sem segir styrkingu krónunnar í ár hafa dregið úr umfangi erlendra kvikmyndaverkefna á Íslandi og að launakostnaður hafi rokið upp. „Þetta gekk ágætlega fram á sumarið. Svo sýnist mér þetta hafa verið heldur dauðara. Það hefur yfirleitt komið sér vel að það er meira að gera á veturna. Þá er þægilegra að vinna í þessum verkefnum. Hótelin eru þá til dæmis minna bókuð. Að mínu mati er óeðlilega lítið af auglýsingum að koma til landsins. Ég tel að það sé út af genginu.“ Í fréttinni kemur fram að Pegasus hafa unnið að framleiðslu Game of Thrones og komið að gerð myndarinnar Arctic. 

Morgunblaðið, 5. september 2017.