Fréttasafn



26. mar. 2018 Almennar fréttir Menntun

Tæknisetur fyrir börn gæti stuðlað að breyttum viðhorfum

„Hefðin fyrir iðnnámi er ekki mjög sterk og ungt fólk skortir fyrirmyndir. Þau þurfa að sjá betur fyrir sér hvernig skemmtileg og spennandi framtíð getur falist í iðn- og verknámi. Önnur ástæða kann að liggja í þeirri staðreynd að okkur gengur illa að vekja áhuga ungra krakka á tækni- og iðngreinum. Þau fá einfaldlega ekki tækifæri til að þróa með sér áhuga og hæfileika á þessu sviði. Það er lykilatriði að ungir krakkar fái tækifæri til að spreyta sig í margvíslegu verk- og tækninámi og fái að finna á eigin skinni hversu skemmtilegt og gefandi það er að vinna með höndunum. Það er of seint að gera það þegar menntaskólaárin nálgast þegar þau hafa eytt stórum hluta grunnskólaáranna í bóknám.“ Þetta segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, í Iðnþingsblaðinu um þann vanda að of fáir eru að velja að mennta sig í iðn- og tæknigreinum sem veldur skorti á starfsfólki og of lítilli nýliðun í ákveðnum greinum. 

RannveigRist_big_1522061357818Rannveig sem er bæði með iðnmenntun og háskólamenntun segir ýmsa aðilar þurfa að koma að því verkefni að efla stöðu iðn- og tæknimenntunar hér á landi og nefnir þar fyrirtækin í landinu, stjórnvöld, skóla, námsráðgjafa og foreldra sem hafi mikil áhrif á námsval. „Ein farsælasta leiðin til að ná árangri á þessu sviði er að fjölga þeim tækifærum sem börn og unglingar hafa til að vinna margvíslega tæknivinnu og gefa ímyndaraflinu lausan taum. Ég hef velt upp þeirri hugmynd að til að ná þessu fram verði komið upp tæknisetrum fyrir börn. Við skulum líta til þess í hverju við Íslendingar erum góð, við erum góð í knattspyrnu og tónlist. Við höfum byggt fótboltahús og tónlistarskóla í höfuðborginni og um allt land og börn eiga kost á að stunda hvorttveggja í góðri aðstöðu með vel menntuðum kennurum og þjálfurum á viðráðanlegu verði. Þessu sama mætti ná fram með tæknisetrum þar sem grunnatriði í vélvirkjun, rafvirkjun, forritun og fleiri greinum yrðu kennd. Síðan mætti halda Tæknileika, líkt og tónleika og fótboltaleiki, þar sem börn kynntu afrakstur vinnu sinnar. Þessi leið hefur skilað okkur framúrskarandi árangri í tónlist og knattspyrnu og ég tel fulla ástæðu til að ætla að það sama geti gerst í verk- og tæknigreinum. Með þessu móti mæti stuðla að breyttum viðhorfum barna og foreldra þeirra, við næðum til þeirra á unga aldri sem hafa áhuga og hæfileika.“ 

Í Iðnþingsblaðinu er hægt að lesa viðtalið við Rannveigu í heild sinni. 

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, tók þátt í pallborðsumræðum um menntun á Iðnþingi, ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og Finni Oddssyni, forstjóra Origo.