Fréttasafn



8. des. 2017 Almennar fréttir Menntun

Það verður alltaf þörf fyrir iðnmenntað fólk á vinnumarkaði

„Fyrst og fremst held ég að þetta snúist um viðhorf. Á einhvern hátt má segja að það sé sinnuleysi eins og í máli víetnamska nemans á Nauthóli. Þeirri staðreynd að nám í skilningi útlendingalaga sé einungis nám á háskólastigi en ekki iðnnám.“ Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali í Markaðnum sem fylgdi Fréttablaðinu í vikunni þegar Haraldur Guðmundsson, blaðamaður, ræðir við hann um menntamál sem Samtök iðnaðarins hafa lagt áherslu á og hvernig auka megi vægi iðnmenntunar. 

Sigurður segir í viðtalinu að lagabreytingin hafi farið í gegnum þingið án nokkurs mótatkvæðis sem sé nokkuð sérstakt. „Þetta viðhorf hefur væntanlega verið ríkjandi um margra alda skeið því þegar Hallgrímur Pétursson var og hét fyrir um 400 árum síðan var hann að nema járnsmíði í Kaupmannahöfn þegar Brynjólfur Sveinsson biskup kom að honum og sagði að svona mælskur maður ætti frekar heima í háskóla.“ 

Unnið að umbótum með hinu opinbera

Hann segir að iðnnám hafi hingað til ekki opnað leiðir inn í háskólanám en með fagháskólastigi verði breyting þar á. „Þá þarf ekki að fara í undirbúningsnám eftir iðnnám og ég held að þetta sé mjög til bóta. Síðan er ýmsar umbætur sem við höfum unnið að með hinu opinbera sem eru þá tæknilegs eðlis. Til þess að auka öryggi nemenda í því að geta klárað námið af því að fólk byrjar og fær vilyrði fyrir því að komast á samning hjá meistara. Síðan verður kannski samdráttur í samfélaginu og það gengur ekki upp og þá fær hann ekki pláss og neminn getur ekki klárað. Það er eitt dæmi sem við höfum verið að vinna í og ný ríkisstjórn hlýtur að taka þessi mál föstum tökum. Við sjáum líka að við erum í miðri fjórðu iðnbyltingunni margumtöluðu og þar verður mikil breyting á störfum þar sem hluti þeirra mun hverfa og ný verða til. Meiri áhersla verður lögð á sköpunargáfu og hæfileika til að leysa verkefni. En það verður alltaf þörf fyrir iðnmenntað fólk á vinnumarkaði þrátt fyrir gervigreind og aðrar breytingar.“

Viðtalið í heild sinni er hægt að lesa á Vísi.