Fréttasafn



6. nóv. 2015 Iðnaður og hugverk

Umbúðir endurspegla vöruna

 Í fundaröð Samtaka iðnaðarins um framleiðni er tekið á ýmsum hliðum framleiðni og fyrirtæki segja frá reynslu sinni. Umbúðir voru umræðuefnið í gær þegar Oddi, Ora og Bláa Lónið sögðu frá því hvernig umbúðir tengjast framleiðni fyrirtækja.

Til að hönnun heppnist vel þarf að hafa vitneskju um allan feril vörunnar, sögðu Elísabet Ýr Sigurðardóttir og Einar Þór Guðmundsson umbúðahönnuðir hjá Odda. Umbúðir endurspegla vöruna, auk þess að vernda hana og tryggja örugga meðferð, geymslu, flutninga og afhendingu, ásamt því að veita neytendum mikilvægar upplýsingar og gegna mikilvægu hlutverki í sölu. Umbúðir eru tækifæri til að ná athygli kaupandans og mikilvægt er að skoða alla þætti umbúða, t.d. uppstillingar í verslunum. Góðar umbúðir eru hannaðar á ábyrgan hátt og lágmarka bæði sóun og neikvæð áhrif vörunnar og umbúðanna á umhverfið. Með réttri hönnun má minnka magn hráefna í umbúðum. Oddi þjónustar fyrirtæki með breytt vöruúrval úr plasti, pappa og pappír. Mikil áhersla er á gæða- og umhverfismál enda er Oddi gæðavottað fyrirtæki og Svansvottað.

Helga Björg Hafberg, gæðastjóri hjá Ora, segir að það sem ráði vali á umbúðum sé hvaða umbúðir henti vörunni, kostnaður og hvort til staðar sé sú tækni og tækjabúnaður sem þarf. Ora framleiðir mikinn fjölda ólíkra vörutegunda sem krefjast fjölbreyttra umbúða til mismunandi nota. Taka þarf tillit til margra sjónarmiða, eftir því hver varan er, auk krafna frá neytendum og umhverfissjónarmiða. Huga þarf að hita- og frostþoli umbúða eftir því hvaða meðferð varan fær í vinnslu. Þá þurfa flestar þeirra umbúðir að henta til að matvæli séu hituð í þeim. Flestar umbúðir sem fyrirtækið notar eru endurvinnanlegar. 

Bláa Lónið hefur markaðssett snyrtivörur í 20 ár og miklar breytingar hafa verið gerðar á umbúðum á þeim tíma. Ása Brynjólfsdóttir, rannsókna- og þróunarstjóri hjá Bláa Lóninu sagði að frá upphafi hafi umbúðir verið hannaðar með tilliti til markaðssetningar. Hugað er að því hvort áhersla sé á lækningamátt, náttúrulegan uppruna eða annað sem koma á til skila til neytenda. Val á umbúðum er háð þessum þáttum. Lögun umbúða, efnisval, áferð og litaval í áletrunum hefur breyst í áranna rás eftir því hvernig markaðssetningin er. Vandað er til valsins og fyrirtækið gefur sér að lágmarki þrjá mánuði til að prófa umbúðir. Varðandi framleiðni þá eru notaðar staðlaðar og einfaldar umbúðir sem eru einfaldar í pökkun. Gerðar eru áætlanir fram í tímann og fyrirtækið leggur sig fram við að hafa gott samstarf við birgja og flutningsaðila. Umbúðir eru endurnýttar eins og kostur er og fylgst er með þróun umbúðalausna.