Fréttasafn



15. nóv. 2017 Almennar fréttir

Uppfæra þarf samgönguáætlun og ríkisfjármálaáætlun vegna innviða

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifar í grein í Fréttablaðinu í dag um mikilvægi þess að ný ríkisstjórn forgangsraði í þágu innviða. Hann bendir á að samgönguáætlun og ríkisfjármálaáætlun þurfi að uppfæra í ljósi þess að auka þurfi fjármagn í innviðaframkvæmdir á næstu árum. Í greininni segir að ný ríkisstjórn þurfi að móta heildstæða stefnu um uppbyggingu innviða – innviðastefnu – enda aukist þá yfirsýn og skilvirkni á þessu sviði. „Innviðir eru lífæðar samfélagsins. Innviðir skapa hagvöxt, störf og lifandi samfélag. Með fjárfestingu í samgöngum, orku-, vatns-, og hitaveitum, skólum og sjúkrahúsum, fjarskiptakerfi og fleiri innviðum er fjárfest í lífsgæðum þjóðarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagvexti framtíðarinnar.“

Ingólfur vitnar til skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga sem kom út fyrir skömmu og fjallar um ástand og framtíðarhorfur innviða hér á landi en þar kemur fram að hluti innviða er í slæmu ástandi og þarfnast nauðsynlega viðhalds. Í skýrslunni segir jafnframt að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða sé í heild 372 milljarðar króna. Verst er ástand vega og fráveitna en þar er uppsöfnuð viðhaldsþörf um 150 milljarðar.

Í niðurlagi greinarinnar segir Ingólfur að innviðauppbygging verði að fá veglegan sess í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og umtalsvert aukið umfang í fjárlögum næstu ára. „Með forgangsröðun og skipulagningu höfum við núna tækifæri til þess að gera þarft átak á þessu sviði til hagsbóta fyrir samfélagið allt án þess að það raski stöðugleikanum.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.