Fréttasafn



30. jún. 2017 Almennar fréttir

Vantar fyrst og fremst stöðugleika í efnahagslífinu

„Það er uppgangur í atvinnulífinu, það er aukinn kaupmáttur og fólki gengur vel. Ef við hverfum níu ár aftur í tímann og berum okkur saman við stöðuna í þjóðfélaginu 2008 og 2009 þá er þetta undravert. Við sem Íslendingar getum verið stolt af því að vinna okkur út úr dýpstu efnahagsþrengingum sem þjóðin hefur lent í.“ Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 þegar Björn Þór Sigbjörnsson ræðir við hana um efnahagsmál en nýjar skýrslur OECD og AGS lýsa góðri stöðu efnahagsmála í landinu. 

Guðrún segir jafnframt að ferðaþjónustan sé mikill áhrifavaldur. „Uppgangur í einni grein hefur gríðarlega mikil áhrif á aðrar greinar. Það að fólk skuli vilja koma og skoða landið okkar þýðir uppgang til dæmis iðnaðar. Það er mikil uppbygging í hótelum og afþreyingu ferðamanna. Það hefur áhrif á mannvirkjageirann. Það vantar innviðauppbyggingu og við höfum áhyggjur af því.“ Hún bendir á að hér sé ekki sterkt almannasamgangnakerfi sem þýði að við þurfum að styrkja vegakerfið okkar gríðarlega. Ferðamenn þurfi að treysta á vegi landsins og brýr og það þurfi að gefa í við uppbyggingu.

Þegar talið berst að hækkun virðisaukaskatts í ferðaþjónustu segist Guðrún vera talskona þess að allir greiði jafnmikið og það sé engin undantekning. „Við tökum öll þátt í því að reka þetta kerfi sem við eigum sameiginlega á Íslandi.“

Hún segir að hér á landi vanti fyrst og fremst stöðugleika. „Á árinu 2008 þá veiktist gengið um 44%, á síðasta ári styrktist gengið um 18% og það sem af er þessu ári hefur það styrkst um 9%. Þetta eru öfgarnar sem atvinnulífið og almenningur í landinu þurfa að búa við á 9 árum.“ Hún segir þó þetta auki kaupmátt almennings, því við flytjum svo mikið inn, skerði þetta samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna. „Þau fyrirtæki okkar sem eru í útflutningi eru í verulegum vandræðum en hins vegar get ég sagt að það er líka stór hluti félagsmanna SI sem finna ekki fyrir þessu og líður bara vel með þetta.“

Þegar Björn Þór spyr hana hvernig við gætum þess að verði ekki ofhitnun nefnir Guðrún að gæta þurfi að peningastefnunni og stjórn opinberra fjármála. „Við verðum að vera samstíga í áttina að því að það springi ekki allt í loft upp.“ Hún nefnir að kjarasamningar hafi verið bólgnir og það hafi ekki verið framleiðniaukning í landinu fyrir 30% hækkun á samningstíma. Hún segir að við getum ekki leyft okkur að borga hærri laun en innistæða er fyrir og framleiðni á Íslandi sé lægri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. 

Á vef RÚV má hlusta á viðtalið í heild sinni sem hefst á mínútu 00:37:40: