Fréttasafn



27. mar. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Vantar upplýsingar um stærðir og gerðir nýrra íbúða

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóra byggingariðnaðar á mannvirkjasviði SI, um skort á upplýsingum um stærðir og gerðir íbúða. Baldur Arnarson, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifar:

Engar tölur eru til um skiptingu nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu eftir fjölda herbergja. Það er því ekkert hægt að fullyrða um fjölgun tiltekinna íbúðagerða í einstökum sveitarfélögum. Þetta segir Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði hjá Samtökum iðnaðarins (SI). Tilefnið er umræða um skort á íbúðum fyrir þá sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn. 

Friðrik segir SI telja að slíkar íbúðir séu á stærðarbilinu 65-85 fermetrar. „Þjóðskrá heldur ekki skráningu af þessu tagi. Við erum margbúin að biðja um þetta og höfum aðstoðað Fasteignaskrá við að halda utan um upplýsingar um nýjar íbúðir, sem Fasteignaskrá gerir vel en er þó ekki alltaf með nýjustu upplýsingar frá sveitarfélögum. Mannvirkjastofnun á að halda utan um þetta frá og með 1. janúar 2018, sem er einmitt það sem við köllum eftir. Nú er hins vegar hvergi hægt að fá þessar upplýsingar.“ 

Lítið byggt af tveggja herbergja íbúðum 

Fyrstu kaupendur hafa í gegnum tíðina byrjað í smáum íbúðum. Friðrik segir aðspurður að lítið sé byggt af slíkum íbúðum. „Við höfum ekkert áþreifanlegt til að staðhæfa út frá. Ég hef það hins vegar frá verktökum að það er lítið sem ekkert byggt af svokölluðum tveggja herbergja íbúðum. Slíkar íbúðir geta verið af ýmsum stærðum. Tilhneigingin hjá efnuðu fólki í miðborg Reykjavíkur er að breyta 3-4 herbergja íbúðum í tveggja herbergja, með því að taka niður veggi. Til einföldunar má segja að tveggja herbergja íbúðir séu hefðbundnar minni íbúðir.“ Friðrik segir þeirrar tilhneigingar hafa gætt á byggingarmarkaði að stækka nýjar íbúðir. „Þetta er þvert á það sem við höfum álitið að væri þörfin. Markaðurinn hefur hins vegar farið út í að framleiða stærri íbúðir. Það er mjög lítið byggt af íbúðum fyrir fyrstu kaupendur á höfuðborgarsvæðinu. Við athuguðum 45 mínútna akstursradíusinn frá miðborg Reykjavíkur í úthverfin og nálæg sveitarfélög. Á Selfossi og í Keflavík er verið að byggja húsnæði sem er einmitt fyrir fjölskyldufólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Þar er verðið viðráðanlegt fyrir fólk. Á Selfossi eru til dæmis byggð lítil raðhús á viðráðanlegu verði,“ segir Friðrik. 

Dýrara að byggja minni íbúðir 

Hann segir verktaka meta stöðuna svo að markaður sé enn fyrir fólk sem vill fara úr sérbýli í nýjar íbúðir í fjölbýli. Dýrara sé að framleiða minni íbúðir. Sá munur skili sér ekki í söluverði. „Yfirleitt er lóðaverð undir fjölbýlishús það sama, hvort sem byggð er 50 fermetra íbúð eða 150 fermetra íbúð. Einstaka sveitarfélög miða lóðarverð við 75 fermetra íbúð en innheimta aukagjald fyrir viðbótarfermetra. Kópavogur hefur gert þetta og Hafnarfjörður í einu útboði. Ávöxtun af stærri íbúðum er meiri fyrir framkvæmdaaðila. Þess vegna hafa menn ekki byggt minnstu íbúðirnar. Meira segja á árunum fyrir hrun voru menn ekki að byggja slíkar hefðbundnar tveggja herbergja íbúðir. Þessi vandi á sér því lengri aðdraganda. Við höfum bent á að það þurfi að koma einhvers konar fyrirgreiðsla, þannig að það verði ávinningur af því að byggja minni íbúðirnar og að um leið hafi kaupendur efni á þeim,“ segir Friðrik.

Morgunblaðið, 27. mars 2017.