Fréttasafn



15. mar. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Vaxtaákvörðun mikil vonbrigði

„Öll skilyrði eru fyrir hendi að lækka vexti. Ákvörðun Seðlabankans veldur vonbrigðum og var ekki í takt við okkar væntingar,“ segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI. Seðlabanki Íslands ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum þrátt fyrir lága verðbólgu sem einkum er drifin áfram af hækkun húsnæðisverðs. Bjarni Már segir að ef húsnæðisliðurinn er tekin frá er verðbólga neikvæð um 1%. Hækkun húsnæðiverðs er einkum drifin áfram af viðvarandi skorti á íbúðarhúsnæði sem er m.a. vegna mikils skorts á byggingarlóðum. „Ég tel rétt að horfa að nokkru framhjá þessari staðreynd við ákvörðun vaxta nú. Staðreyndin er sú að undirliggjandi verðbólga í hagkerfinu er neikvæð um 1% en verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5%. Í grunninn erum við víðsfjarri þessu marki eða sem nemur 3,5 prósentum og því hefði lækkun vaxta átt að blasa við,“ segir Bjarni Már.

Hagvöxtur á síðasta ári mældist 7,2% og var nokkru meiri en búist var við. Einkaneyslan á stóran hluta af þessum mikla hagvexti. „Það er sannarlega ánægjulegt að afkoma heimilana í landinu sé að batna en ekki má líta framhjá því að styrking krónunnar á umtalsverðan hlut í aukningunni. Háir vextir styðja við styrk krónunnar og ýta þar með undir frekari einkaneyslu frekar en að auka sparnað. Gríðarlegur vöruskiptahalli á síðasta ári er skýrt merki um þessa þróun en mikill afgangur af þjónustuviðskiptum vegur upp á móti. Það má ekki vanmeta þá miklu hættu sem fólgin er í mikilli styrkingu krónunnar sem grefur undan samkeppnishæfni okkar. Út frá verðlagsþróun og stöðu hagkerfisins tel ég að vextir hefðu átt að lækka,“ segir Bjarni Már.