Fréttasafn



8. mar. 2018 Almennar fréttir Menntun

Verðmæt og eftirsótt menntun

Um 140 manns sóttu ráðstefnu Iðnmenntar sem haldin var 1. mars síðastliðinn á Grand Hótel í Reykjavík. Yfirskrift ráðstefnunnar var Vinnustaðanám í starfsnámi. Fjallað var um efnið frá ýmsum hliðum og var Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal þeirra sem fluttu erindi á ráðstefnunni. Erindi hans bar yfirskriftina Verðmæt og eftirsótt menntun með vísan í iðn-, tækni- og verkmenntun. Hann sagði slíka menntun vera eina af grunnstoðum afkastamikils atvinnulífs. Sigurður hvatti gesti til að beita sér fyrir breyttu viðhorfi til iðnnáms og djarfari framtíðarsýn þar sem mikil eftirspurn væri eftir iðnmenntuðu starfsfólki og hvetja þyrfti fleiri til að sækja í slíkt nám. Þá sagði hann mikilvægt að efla námsráðgjöf í grunnskólum og auka áherslu á styrkleika hvers og eins.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, flutti opnunarávarp þar sem hún ræddi m.a. mikilvægi þess að efla iðn-, tækni- og verknám á Íslandi með því að bæta stjórnskipulag starfsnáms, innleiða rafrænar ferilbækur, endurskoða lög og reglugerðir er varða námið og fella niður efnisgjöld í framhaldsskólum. 

Aðrir sem fluttu erindi voru Elsa Eiríksdóttir, lektor í kennslufræði verk- og starfsmenntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Halldór Hauksson, verkefnastjóra rafrænna ferilbóka, og Jón B. Stefánsson, skólameistari Tækniskólans. Á seinni hluta ráðstefnunnar fóru fram pallborðsumræður sem Margrét Friðriksdóttir, skólameistari Menntaskólans í Kópavogi, stjórnaði. Þátttakendur voru fulltrúar atvinnurekenda, launþega og kennara í starfsgreinaráðum, auk formanns starfsgreinarnefndar úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þeir héldu allir stutta tölu um afstöðu sinnar starfsgreinar til vinnustaðanáms í starfsnámi og svöruðu síðan spurningum úr sal. Öll voru þau sammála um mikilvægi iðn-, tækni og verknáms og að grundvöllur væri til að gera betur á því sviði sem yrði öllum í hag. Ráðstefnustjóri var Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari Fjölbrautarskólans í Breiðholti og formaður stjórnar Iðnmenntar.

Á vefnum Netsamfélag er hægt að horfa á upptöku af ráðstefnunni.