Fréttasafn



16. mar. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Verðmæti liggja í ruslinu

Sýningin #endurvinnumálið var opnuð í Hafnarhúsinu í gær þegar HönnunarMars var formlega settur. Á sýningunni eru nytjahlutir unnir úr áli sem safnað hefur verið úr sprittkertum. Hönnuðirnir Studio Portland, Ingibjörg Hanna, Olga Ósk Ellertsdóttir og Sigga Heimis hönnuðu nytjahlutina í samstarfi við Málmsteypuna Hellu. Samál og Samtök iðnaðarins eru meðal þeirra sem standa að baki verkefninu. Meðal nytjahlutanna eru hjólastandur, stólar og ljós. 

Í tengslum við sýninguna eru viðtöl við fólk sem tengist áli og endurvinnslu og þar á meðal er Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs SI. Hér fyrir neðan er hægt að lesa viðtalið við Bryndísi sem birt er á sýningunni undir yfirskriftinni: 

Við getum gert betur - verðmæti liggja í ruslinu

„Endurvinnsla skipar sífellt meiri sess í okkar daglega lífi. Mörg fyrirtæki veitaþjónustu á því sviði og er það til marks um að verðmæti liggja í ruslinu,“ segir Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs Samtaka iðnaðarins. „Endurvinnsla úrgangs hefur aukist hratt hérlendis á undanförnum áratug. Árið 2014 var hlutfallið komið í um 30% og hafði hækkað skarpt frá árinu 2008. Hins vegar erum við eftirbátar þeirra þjóða sem við berum okkur helst saman við og höfum margt að vinna. Við getum gert betur og aukin flokkun hjá heimilum og fyrirtækjum undanfarinna ára gefur vonir um að meiri árangur náist.“

Bryndís segir að hér áður fyrr hafi ein tunna staðið við hvert hús og í hana hafi farið allur úrgangur sem til féll. „Öskubíllinn ók göturnar og öskukallarnir sem svo voru nefndir týndu upp tunnurnar hver af annarri og tæmdu í öskubílinn. Síðan var ekið með fullan bíl af rusli að risastórri holu í útjaðri bæja, úrganginum sturtað úr bílnum í holuna og mokað yfir. Nú er þetta gert með öðrum hætti þar sem úrgangurinn er flokkaður, bæði í fyrirtækjum og á heimilum. Fleiri en ein tunna er við hvert hús og enn fleiri á söfnunarstöðvum. Á síðustu árum hefur verið skapaður farvegur fyrir ólík efni og möguleikar til endurvinnslu eru fjölbreyttir.“

Bryndís segir að á Íslandi hafi iðnaður kringum úrgangsmeðhöndlun vaxið og mikil tækifæri liggi í frekari þróun á aðferðum við söfnun, meðferð og endurvinnslu úrgangs. „Talsverð starfsemi er í kringum söfnun, flokkun og forvinnslu fyrir endurvinnslu, t.d. á plasti og lífrænum úrgangi. Fá fyrirtæki hafa þó náð að vaxa í endurvinnsluiðnaði hérlendis en engu að síður er hægt að endurvinna ál alla leið í nýja vöru og loka hringrásinni.“

Úrgangur stendur að baki um 8% af losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi, að sögn Bryndísar. „Með aukinni flokkun úrgangs og betri úrgangsmeðhöndlun er hægt að ná árangri fljótt. Gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs er forsenda þess að stjórnvöld nái metnaðarfullum markmiðum sínum í málaflokknum en stefnt er að 40% minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 í samanburði við losun árið 1990 samkvæmt Parísarsamkomulaginu.“

Hún segir að þessi markmið séu í takt við markmið Evrópusambandsins. „Loftslagsmál eru hnattræn í eðli sínu og við höfum náð árangri á mörgum sviðum. Framleiðsla á hreinni orku er eitt stærsta framlag Íslands til loftslagsmála og er landið fremst meðal þjóða í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Margar íslenskar vörur skila því lágu kolefnisspori í hnattrænu samhengi. Næstu verkefni okkar liggja í orkuskiptum í samgöngum og bættri úrgangsmeðhöndlun.“

Bryndis-plakat