Fréttasafn



19. okt. 2017 Almennar fréttir Menntun

Víðtæk samstaða flokkanna að gera forritun að skyldufagi

Í frétt Þorbjörns Þórðarsonar á Stöð 2 kemur fram að víðtæk samstaða er meðal stjórnmálamanna að gera tölvuforritun að skyldufagi í grunn- og framhaldsskólum. Á fundi Samtaka iðnaðarins með fulltrúum stjórnmálaflokkanna í Kaldalóni í Hörpu var rætt um þau málefni sem brýnust eru fyrir samkeppnishæfni íslensks iðnaðar og þar kom meðal annars fram vilji samtakanna til að gera forritun að skyldufagi til að efla menntun.  

Í fréttinni kemur fram að mikill skortur sé á iðnlærðu fólki hér á landi til að mæta þörfum atvinnulífsins. Þar segir að á fundinum hafi komið fram að efla þyrfti markaðssetningu á iðngreinum til að gera þær meira aðlaðandi í augum nemenda og í raun væri brestur þegar kæmi að viðhorfum almennings til menntunar þar sem fjölmargir foreldrar hefðu þær ranghugmyndir að hefðbundið bóknám í háskóla væri alltaf börnum þeirra fyrir bestu. Einnig hafi komið fram á fundinum að mikill skortur sé á tölvu- og tæknimenntuðu fólki.

Þegar fulltrúar flokkanna eru spurðir hvort gera eigi tölvuforritun að skyldufagi í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi svara allir því játandi nema Sigríður Á. Andersen í Sjálfstæðisflokknum sem segist ekki hafa forsendur til að meta hvort það eigi að vera skylda eða val.

Hér er hægt að nálgast fréttina:

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV5BB02057-374F-4907-BCEF-9B488321D9CE