Fréttasafn



9. okt. 2017 Almennar fréttir

Vill sníða tækifærin í kringum það sem fólk getur gert

„Við eigum að sníða tækifærin í kringum það sem fólk getur og við eigum að hætta að tala um örorku, fatlanir og svo framvegis. Ég vil frekar tala um takmarkaða hæfni en skort. Því það á við um okkur öll. Við erum öll með takmarkaða hæfni … ég, ráðherra, jafnvel forsetinn. Það getur enginn allt. Tölum því um starfsgetu en ekki vangetu. Tölum út frá þörfinni. Á Íslandi í dag vantar alls staðar fólk til starfa. Atvinnulífið þarf að aðlaga sig að vinnuaflinu. Ef einhver getur unnið 30%, notum þau 30%. Ef einhver getur unnið meira, notum það. Sníðum tækifærin í kringum það sem fólkið getur gert. Því það að hafa vinnu, að hafa hlutverk í lífinu er svo gríðarlega mikilvægt fyrir okkur öll.“ Þetta kom meðal annars fram í ræðu Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns SI, á aðalfundi Þroskahjálpar um helgina. 

Guðrún sagði að í atvinnulífinu ætti að horfa á hvað við getum gert en ekki hvað við getum ekki. „Sumir hafa hæfileika í 120% starf, aðrir kannski bara í 10% og það er bara þeirra hæfileiki. Við erum nefnilega ekki öll eins og það skiptir ekki máli hvaðan við erum að koma eða hvað við erum að gera. Aðalatriðið er að hæfileikar allra fái notið sín.“